143. löggjafarþing — 123. fundur,  18. júní 2014.

frestun verkfallsaðgerða Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair.

616. mál
[16:25]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns vekja athygli á því að þó að við komum hér saman að sumarlagi til þess að ræða þetta mál að beiðni ríkisstjórnarinnar er hæstv. innanríkisráðherra ekki í salnum til að vera viðstödd umræðuna. Það tel ég ekki til fyrirmyndar og óska eftir því að gerðar verði ráðstafanir til þess að hún geti verið viðstödd umræðuna. Við ætlum ekki að hafa þetta langa umræðu en það er þó lágmark að ráðherrann sé viðstaddur hana.

Ég vil í upphafi minna á að við í stjórnarandstöðunni höfum sýnt skilning á því erfiða ástandi sem uppi er. Við höfum tekið vel í málaleitan ríkisstjórnarinnar um að hér verði þing kallað saman að sumarlagi til að fjalla um þetta mál og við höfum greitt fyrir því að málið komi á dagskrá. Við í Samfylkingunni höfum alla vega greitt því atkvæði með afbrigðum til að málið komist á dagskrá og verði rætt. Eins og venjulega teljum við mikilvægt við aðstæður sem þessar að óvissu sé eytt og löggjafinn taki skýra afstöðu án ástæðulauss dráttar til efnisatriða mála. Þetta er sannarlega alvarleg staða sem upp er komin. Það er erfið staða í ferðaþjónustunni þegar horfur eru á allsherjarverkfalli flugvirkja hjá Icelandair á þeim tíma þegar ferðaþjónustan er í algjöru hámarki. Vissulega vakna þá eðlilegar áhyggjur og sjónarmið um almannahagsmuni og um það hvort löggjafinn þurfi að grípa til aðgerða til þess að halda þjóðveginum opnum og hvort aðstæður séu þannig að þær réttlæti að gengið sé gegn hinum mikilvægu réttindum samningsréttarins sem tryggð eru í stjórnarskrá í 74. gr. og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Það er því sannarlega þannig að í þessu máli eru ríkari líkur, við fyrstu sýn a.m.k., á að almannahagsmunasjónarmiðið eigi við en í öðrum þeim málum sem ríkisstjórnin hefur áður lagt fram hér á þinginu á undanförnum mánuðum.

Þar komum við að því sem flækir þetta mál og gerir það erfiðara og átaksillra að öllu leyti. Það er sú staðreynd að ríkisstjórnin kemur hér í þriðja skiptið á þremur mánuðum með frumvarp fyrir Alþingi Íslendinga þar sem grundvallarmannréttindi, sem heyrir til stórtíðinda að séu numin úr gildi með lagasetningu í öðrum löndum, verði numin úr gildi á Íslandi.

Ekki nóg með það. Í fyrsta málinu af þeim þremur fór því víðs fjarri að skilmálar stjórnarskrárinnar um almannahagsmuni væru uppfylltir, í málinu er varðaði undirmenn á Herjólfi. Ég skal rifja það upp fyrir þingheimi til þess að það fari aldrei á milli mála að í því máli bentum við á að undirmenn á Herjólfi hefðu ekki fengið bætt afnám sjómannaafsláttar á sama hátt og undirmenn á skipum Hafrannsóknastofnunar og á skipum Landhelgisgæslunnar. Það lá fyrir að einfalt væri með viðbótarfjárframlagi í samninginn við Eimskip um rekstur Herjólfsferjunnar að gera fyrirtækinu kleift að mæta kröfum undirmannanna eins og ríkið hafði áður bætt undirmönnum á skipum Hafrannsóknastofnunarinnar og Landhelgisgæslunnar afnám sjómannaafsláttar. Það var ekki gert.

Við skutum á það þá að kostnaðurinn af því að mæta þessum kröfum væri einhvers staðar í kringum 20 millj. kr. á ári og rúmaðist fyllilega innan eðlilegs leiðréttingarkostnaðar á gömlum samningi eins og þeim sem liggur til grundvallar rekstri Vestmannaeyjaferjunnar. Hversu lítill er ekki sá kostnaður nú þegar við horfum á hvað hefur gerst í kjölfarið, þegar við sjáum tjónið sem ríkisstjórnin bjó til með því að elta þær kröfur að setja lög til þess að stöðva yfirvinnubann, ekki einu sinni verkfall heldur yfirvinnubann, undirmanna á Herjólfi? Með því voru þau skilaboð send öllum fyrirtækjum í samfélagslega mikilvægum atvinnugreinum, eins og ferðaþjónustu, eins og flutningum til og frá landinu, að þau þyrftu engin óþægindi að þola, ríkisstjórnin mundi koma og bjarga þeim í hvert skipti sem látið yrði reyna á samningsrétt launþega. Flugleiðum, Icelandair, voru gefin skýr skilaboð með öðrum orðum um að þeir þyrftu ekkert að gera til að mæta viðsemjendum sínum. Þeir gætu setið, þverskallast við öllum kröfum, sér og sínum að meinlausu, því að ríkisstjórnin mundi koma og skera þá niður úr snöru vinnustöðvana við fyrsta tækifæri, um leið og eitthvað bjátaði á.

Skilaboðin sem send voru með löggjöfinni á undirmenn á Herjólfi voru þess eðlis að þau spilltu fyrir eðlilegum samskiptum á vinnumarkaði, trufluðu eðlilega og heiðarlega samninga um kaup og kjör, tóku öll völd af launamönnum í viðskiptum sínum við viðsemjendur í samfélagslega mikilvægum fyrirtækjum. Það voru öll völd og allur þvingunarmáttur tekinn af launamönnum með þessari lagasetningu. Það er stóralvarleg aðgerð.

Við því var varað í umræðunni um lagasetninguna vegna Herjólfs. Á það var bent að ríkinu væri í lófa lagið sem ábyrgðaraðila ferjusiglinga við Vestmannaeyinga að bæta smá í samninginn og mæta réttmætum kröfum. Það var bent á það að fyrir dyrum væru samningar við Isavia, við flugfreyjur, við flugmenn, við flugvirkja, en ríkisstjórnin kaus að ganga þessa leið. Og þegar menn ganga þá leið hefur það afleiðingar. Þeir skemma andrúmsloft á vinnumarkaði, þeir skemma vígstöðu launamanna og þeir skaða forsendur fyrir heilbrigðum samningum á vinnumarkaði.

Virðulegi forseti. Hér hefur nokkuð verið talað um það af hæstv. ráðherra hversu leitt henni þyki að vera í þessu hlutverki í þriðja skiptið á þremur mánuðum. Og hún talar um mikilvægi nýrrar lagasetningar. Sama heyrðist áðan frá formanni umhverfisnefndar. Ég hef þungar áhyggjur af því að þessi ríkisstjórn sé nákvæmlega að búa í haginn fyrir lagabreytingar sem snúa að því að breyta í grundvallaratriðum umgjörð um réttarstöðu fólks á vinnumarkaði, að það eigi að nota þessi ítrekuðu tilvik til að raða taflmönnunum upp á nýtt, öðruvísi en áður hefur verið gert, taka af launafólki réttindi sem það hefur hingað til haft, stilla fólki betur upp við vegg, láta á þetta reyna aftur og aftur til að draga úr viðstöðuaflinu þegar kemur að því að koma með eitthvert frumvarp um breytingar sem munu draga úr réttindum launamanna til að láta reyna á kröfur sínar.

Við hljótum þess vegna að gjalda mikinn varhuga við þegar ríkisstjórn, sem hefur sýnt það að hún er ekki einu sinni á gagn og gaman stiginu þegar kemur að getu hennar til að eiga heilbrigð samskipti við aðila vinnumarkaðarins, boðar lagasetningu um nýja umgjörð samskipta á vinnumarkaði. Þessi ríkisstjórn er sú síðasta sem ég get hugsað mér að eigi að fá traust til að leggja grunn að nýjum leikreglum á vinnumarkaði. Þetta er ríkisstjórnin sem féll á því stóra prófi að tryggja viðgang þjóðarsáttarsamninga sem hún fékk gefins, sem ultu í kjöltuna á henni hér á vetrarsólstöðum, 21. desember. Henni tókst að klúðra með slíkum afburða hætti þeim friði sem þá var skapaður á vinnumarkaði að engin dæmi eru um viðlíka forklúðrun hjá nokkurri ríkisstjórn í samskiptum við heildarsamtök vinnumarkaðarins á umliðnum áratugum. Hún lofaði þá framlagi til kjarasamninga með lækkun á gjaldskrám á opinberri þjónustu sem hún passaði sig að efna ekki fyrr en hálfu ári seinna svo að hún þyrfti ekki að efna nema helminginn af samkomulaginu. Svona ríkisstjórn er ekki hægt að treysta fyrir samskiptum við aðila vinnumarkaðarins.

Það setur að mér ugg að standa hér í ræðustól og vara við aðgerðum ríkisstjórnarinnar þegar hún kemur með frumvörp trekk í trekk á þremur mánuðum til þess að taka frá borgurum landsins stjórnarskrárvarin grundvallarréttindi og sitja stöðugt undir ummælum í þá veru að breyta þurfi lagaumgjörðinni í landinu. Mér finnst vera verið að gefa upp í, verið að skapa aðstæður sem eiga að leiða til þess að leikreglunum á vinnumarkaði sé breytt. Mér finnst sérkennilegt að standa hér í þriðja skiptið þegar um svona löggjöf er að ræða á þremur mánuðum og núna er sagt að breyta þurfi leikreglunum en það hefur ekkert samráð verið haft við stjórnarandstöðu, ekki orð við okkur talað um breytingar á leikreglum á vinnumarkaði frá því að fyrstu lögin voru sett hér 1. apríl sl., ekki orð. Af hverju hafa menn ekki nýtt tækifærið til þess? Hvar er samráðið? Við erum að tala um grundvallarleikreglur frjáls samfélags.

Virðulegur forseti. Það er líka í tísku að tala nokkuð digurbarkalega um almannahagsmuni sem þurfi að verja með því að taka samningsrétt af launafólki. Það er vissulega rétt að komið geta upp þær aðstæður að almannahagsmunir krefjist þess að þau réttindi séu takmörkuð. En það er ekki nóg að nota orðið almannahagsmunir og skýla sér á bak við það til þess að ganga á svig við stjórnarskrárbundin mannréttindi. Það gerðu menn til dæmis mjög purkunarlaust þegar frumvarpið kom fram um aðgerðirnar gegn Herjólfi, því að ríkisstjórnarmeirihlutinn kolféll þar á prófinu um almannahagsmuni sem þurftu að liggja til grundvallar lagasetningunni.

Hvað má þá á móti segja um almannahagsmunina, af því að það sé viðurkennt að launamenn hafi rétt til þess að semja um vinnu sína og verðleggja hana? Menn koma aftur og aftur í þessari umræðu á undanförnum vikum, við heyrðum það mikið í umræðunni um flugmenn að þeir væru svo vel launaðir að þeir þyrftu ekkert á þessum samningsrétti að halda og að fyrirtækið væri að verða fyrir miklu tjóni, Icelandair. Grundvallarhugmyndin að baki samspili frjáls vinnumarkaðar og kapítalísks samfélags er sú að verð á vinnu sé í eðlilegu samhengi við afrakstur fyrirtækja. Ef launamenn eru sviptir réttinum að verðleggja vinnu sína dýrt gagnvart fyrirtækjum sem afla gríðarlegra tekna, eins og Icelandair gerir vegna uppgangs í ferðaþjónustu, er verið að taka úr sambandi grundvallarforsenduna um jafnvægi í samfélaginu, um jafnvægi í siðuðu markaðssamfélagi sem byggir engu að síður á félagslegu réttlæti.

Með þessari aðför, endurtekinni aðför að samningsréttinum, er verið að veikja þann grunn sem við þurfum að standa á, að launamenn séu frjálsir að því, líka þeir sem meira hafa á milli handanna, að verðleggja vinnu sína dýrt og að þeir sem eru í bestri stöðu, vegna þess að viðsemjandi þeirra er fyrirtæki sem hagnast mjög mikið, geti gert meiri kröfur en aðrir. (Forseti hringir.) Það er beinlínis forsenda þess að jafnvægi sé í kerfinu.

Virðulegi forseti. Ég bið um nokkra tilhliðrunarsemi því að ég áttaði mig ekki fullkomlega á því hvað tímanum leið, enda engin klukka hér í borði. Við munum auðvitað vilja fá að sjá hvað gestir segja (Forseti hringir.) í hv. þingnefnd og meta málið í ljósi þess sem þar kemur fram og (Forseti hringir.) taka síðan afstöðu til þess í framhaldinu.