143. löggjafarþing — 123. fundur,  18. júní 2014.

frestun verkfallsaðgerða Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair.

616. mál
[16:42]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður snýr út úr orðum mínum hvað það varðar að meta eigi þetta tilvik sjálfstætt. Ég tel eðlilegt að meta hvert tilvik sjálfstætt, það hef ég áður sagt. Ég var að benda á að aðgerðir ríkisstjórnarinnar í Herjólfsmálinu hefðu haft afleiðingar, hefðu skapað væntingar á vinnumarkaði. Í því máli var ekki verið að uppfylla kröfu um almannahagsmuni því að það voru samgöngur til Vestmannaeyja. Þær voru vissulega lakari en þær gerast bestar en þær voru fyrir hendi, þannig að ekki var verið að uppfylla kröfuna um almannahagsmuni.

Virðulegi forseti. Í annan stað, hvað það varðar að breyta reglum og veita ríkissáttasemjara nýjar heimildir, þá er ég til viðræðu um umgjörð á vinnumarkaði. En ég verð að benda þessum ágæta ríkisstjórnarmeirihluta á að hann verður að fara að tileinka sér að tala við annað fólk. Hann verður að leita eðlilegs samráðs. Ég er tilbúinn til að setjast niður án fyrir fram gefinnar niðurstöðu. Ég ætla ekki að setjast niður á þeim forsendum að þessi ríkisstjórn sé búin að banka launþegahreyfinguna í landinu í þrígang á þremur mánuðum þannig að væntingar hafi skapast um að þessi eða hin grundvallarréttindi verði tekin af fólki. Það er ekki í boði af minni hálfu. Ég er til í að setjast niður og ræða mál án fyrir fram gefinnar niðurstöðu en ekki á þeim forsendum að afhenda eigi mönnum þessi eða hin úrræði fyrir fram. Ég er ekki tilbúinn til þess.

Virðulegi forseti. Mér þykir hv. þingmaður vera farinn að ganga býsna langt ef hann er farinn að mæla fyrir því, eins og ég skil hann, að tilteknar starfsstéttir eins og sú sem hér á í hlut eigi yfir höfuð ekki að hafa verkfallsrétt. Af hverju leggur ríkisstjórnin, af hverju er hún ekki samkvæm sjálfri sér, bara ekki fram lagafrumvarp um að starfsmenn Icelandair skuli falla undir kjararáð? Það væri eðlilegra miðað við framgöngu ríkisstjórnarinnar nú. Ef hún vill með þessum hætti skjóta skildi yfir tiltekin fyrirtæki (Forseti hringir.) og tilteknar atvinnugreinar þá verður hún að ganga alla leið í því efni.