143. löggjafarþing — 123. fundur,  18. júní 2014.

frestun verkfallsaðgerða Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair.

616. mál
[16:46]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég rakti áðan í ræðu minni þarf að meta hvert tilvik þegar það kemur upp á þeim forsendum sem að baki liggja. Vorið 2010 voru vissulega sett lög á verkfall flugvirkja. Fyrir því voru efnisleg rök og aðstæður og bakgrunnur þess máls var allt annar en bakgrunnur þess máls sem nú er fyrir hendi. (HöskÞ: Hvað var það?) Nægir þar að nefna, virðulegi forseti, að sú ríkisstjórn var ekki nýbúin að gangast fyrir lagasetningu á verkfall undirmanna á Herjólfi. (HöskÞ: Á ekki að meta hvert tilvik fyrir sig?) Og það er einfaldlega þannig að þau skilaboð sem ríkisstjórnin sendi fyrirtækjum í flutningastarfsemi og ferðaþjónustu með lagasetningu á Herjólf voru þess eðlis að þau eyðilögðu eðlileg samskipti á vinnumarkaði í þessum greinum, settu þau í uppnám. Það er staðreynd.

Herkostnaðurinn sem samfélagið ber af þessari fáránlegu skógarferð ríkisstjórnarinnar er gríðarlegur þegar horft er á það að ríkisstjórninni var í lófa lagið að veita 20 millj. kr. meira. Hver hefur kostnaðurinn verið hjá Flugleiðum á síðustu mánuðum vegna verkfallsaðgerða? 20 milljónir í viðbótarframlag, vegna rekstrar Vestmannaeyjaferju, hefði verið skynsamleg fjárfesting af hálfu ríkisstjórnarinnar frekar en að ofnota meirihlutavald sitt hér og ganga gegn grundvallarréttindum launþega.

Það er áhyggjuefni ef ríkisstjórnarmeirihlutinn áttar sig ekki á þeim alvarlegu mistökum sem hann gerði og gerir sér ekki grein fyrir því að þarna voru tekin úr sambandi grundvallarviðmið sem heilbrigð samskipti á vinnumarkaði hljóta að byggjast á vegna þess að báðir aðilar vita að þeir hafa einhverju að tapa. Með lagasetningu í Herjólfsdeilunni var fyrirtækjunum, atvinnurekendunum, sagt: Þið hafið engu að tapa, þið verðir alltaf skornir niður.