143. löggjafarþing — 123. fundur,  18. júní 2014.

frestun verkfallsaðgerða Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair.

616. mál
[16:51]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við séum öll sammála um alvöru málsins. Við erum öll sammála um mikilvægi þess. Ef það verður hugsanlega farið í einhverjar breytingar þarf það að gerast í miklu samráði og mikilli samvinnu aðila vinnumarkaðarins og stjórnmálaflokkanna allra.

Eins og kom fram í máli mínu hefur hingað til ekki verið sérstaklega mikill áhugi hjá aðilum vinnumarkaðarins, og kannski ekki heldur hjá okkur sem sitjum á þingi, á að efla til dæmis embætti ríkissáttasemjara. Sú stofnun hefur verið mjög fjársvelt og hefur svo sannarlega fengið að finna fyrir því, m.a. í þeirri miklu samningalotu sem hefur átt sér stað.

Við megum heldur ekki gleyma því og missa sjónar á því að við höfum líka verið að undirrita tugi kjarasamninga. Ég held að þegar hafi verið gengið frá 150 kjarasamningum. Þannig að þótt þessar deilur vekji mikla athygli hefur samhliða þeim verið gengið frá kjarasamningum þar sem menn hafa náð fram kröfum sínum og hafa jafnvel í einhverjum tilvikum bætt kjör sín kjör verulega og breytingar verið gerðar sem eiga að koma okkur til góða til framtíðar litið. Þetta er hins vegar eitthvað sem skiptir okkur öll verulega miklu máli. Ég vil því endurtaka: Þetta er það stórt og mikilvægt mál að við munum gæta okkar og við munum fara vel með það. Ástæðan fyrir því að við erum hér saman komin eru þeir miklu hagsmunir sem snúa að þjóðarbúinu.