143. löggjafarþing — 123. fundur,  18. júní 2014.

frestun verkfallsaðgerða Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair.

616. mál
[16:53]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra frekari skýringar. Ég vil ítreka að að mínu áliti er mjög mikilvægt að að baki umræðu um breytingar á vinnulöggjöfinni nú liggi skuldbinding ríkisstjórnarmeirihlutans um samstöðu þvert á flokka um breytingar. Ég tel að það skipti höfuðmáli.

Það er auðvitað sérstaklega mikilvægt í ljósi þess að ríkisstjórnarmeirihlutinn hefur farið býsna óhönduglega með þessi samskipti á undanförnum mánuðum og ríkisstjórnin sjálf er búin að klúðra tækifærinu til að tryggja hér viðgang alvöruþjóðarsáttarsamninga sem hún fékk upp í hendurnar á vetrarsólstöðum og fyrir liggur að aðilar vinnumarkaðarins telja að illmögulegt sé að halda áfram með kjarasamninga á þeim grunni.

Við eigum gríðarlega mikið undir því sem þjóð að byggja á hefð þjóðarsáttarsamninga, að skapa frið á vinnumarkaði um raunverulegar kjarabætur sem skila sér til fólks, en þá þarf ríkisstjórn að spila með. Á það þykir mér hafa skort í tíð þessarar ríkisstjórnar með átakanlegum hætti, en ég met að heyra frá félagsmálaráðherra að ekki verði farið í lagabreytingar um regluverkið á vinnumarkaðnum nema í samvinnu allra flokka.