143. löggjafarþing — 123. fundur,  18. júní 2014.

frestun verkfallsaðgerða Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair.

616. mál
[17:09]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég var ekki viðstaddur umræðu þá og ekki við atkvæðagreiðsluna og greiddi því ekki atkvæði.

Ég ætla hins vegar að segja hv. þingmanni að það er mjög varasamt ef við ætlum að fara að festa hvert annað í atburðum liðinnar tíðar. Það varð hrun á Íslandi, það var eldgos á Íslandi, þá voru aðstæður uppi sem ekki eru núna.

Ég vil taka það fram að í mínum huga er þetta mikið prinsippmál og í þeirri yfirlýsingu felst kannski vísbending um hvað ég hefði hugsanlega gert. En ég sakfelli engan mann sem greiddi atkvæði á annan veg í ljósi þeirra atburða sem uppi voru.

Ég segi líka: Gætum okkar á því að fara ekki að festa hvert annað í tyggjófari liðinnar tíðar að þessu leyti, hvort sem það á við um hv. þingmann, þingflokk hans eða aðra þingflokka eða aðra stjórnmálamenn. Reynum að hefja okkur upp úr því. Þetta er miklu stærri og alvarlegri umræða um grundvallaratriði en svo að við eigum að leyfa okkur slíkt.