143. löggjafarþing — 123. fundur,  18. júní 2014.

frestun verkfallsaðgerða Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair.

616. mál
[17:12]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir innblásna ræðu um verkfallsréttinn. Við erum sammála um hann. Það er enginn sem ætlar að hafa verkfallsréttinn af launamönnum enda sagði hv. þingmaður það í ræðu sinni að hann teldi að það væri ekki ætlun núverandi ríkisstjórnar að feta þann veg. Ég get fullvissað hann um það að ég mundi berjast gegn því ef svo væri.

Það er annað sem ég vildi vekja athygli á og mér finnst svolítið ósanngjarnt. Það er þegar hann segir að við þurfum að gæta að því að undantekning sem á að sanna meginregluna um verkfallsréttinn verði ekki að meginreglu. Af því leiðir að við þurfum að vega og meta öll þau skipti sem við höfum sett lög á verkföll undanfarna mánuði, jafnvel ár, ekki satt?

Ég er nefnilega annarrar skoðunar. Við þurfum að vega og meta það í hvert einasta skipti, algjörlega óháð því hvað er um að vera í kjaradeilum annarra aðila. Það er veruleikinn sem blasir við okkur á Íslandi. Þannig var veruleikinn árið 2010 þegar þáverandi ríkisstjórn setti lög á boðað verkfall flugvirkja. Hér er sagt að þá hafi verið aðrar aðstæður, hrun og eldgos, atburðir þeirra tíma. Þess er hvergi getið í lögskýringargögnum með þeirri lagasetningu, hvergi. Ég hef meira að segja lagst í lestur á ræðum frá þeim tíma og ég finn þessu hvergi stað. Kannski að hv. þingmaður hefði flutt slíka ræðu, ég skal ekkert segja um það. (Gripið fram í: Kannski var ekkert eldgos.)

Virðulegi forseti. Það getur vel verið að það sé ósanngjarnt að við bendum á það hvernig síðasta ríkisstjórn (Forseti hringir.) hagaði sínum málum. En við viljum þó benda á það líka að við studdum þá lagasetningu vegna þess að við (Forseti hringir.) vorum ábyrg stjórnarandstaða. Það er krafa sem ég geri til stjórnarandstöðunnar hér (Forseti hringir.) á þingi, að hún sé jafn ábyrg og við vorum á þeim tíma.