143. löggjafarþing — 123. fundur,  18. júní 2014.

frestun verkfallsaðgerða Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair.

616. mál
[17:18]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að réttlæta lagasetninguna í tíð fyrri ríkisstjórnar, ég hef gert grein fyrir afstöðu minni almennt. Ég ætla hins vegar að mótmæla því að aðstæður séu þær sömu í dag og þær voru þá.

Hvernig stendur á því að hver stéttin á fætur annarri efnir nú til verkfalla? Hvernig stendur á því að nánast engin verkfallsátök voru á árunum upp úr hruni, hvernig stendur á því? Ástæðan er skiljanleg. Það gerðu sér allir grein fyrir því hvað átt hafði sér stað á Íslandi; stórfellt efnahagshrun þar sem tekjustofnar ríkis, sveitarfélaga, fyrirtækja hrundu. Það héldu allir að sér höndum.

Núna er ástandið frábrugðið að þessu leyti. Við vonum að við séum komin út úr kreppunni, ég ætla ekkert að fullyrða um það, alls ekki, en tilfinning fólks er önnur nú (Forseti hringir.) en hún var þá enda veruleikinn ekki sá sami.