143. löggjafarþing — 123. fundur,  18. júní 2014.

frestun verkfallsaðgerða Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair.

616. mál
[17:19]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann sagði að til væru réttlát verkföll eða að honum fyndist sum verkföll vera réttlát og þar af leiðandi væntanlega önnur ranglát.

Nú gerðist það í vetur að gerður var samningur við meginhluta félaga í ASÍ um 2,8% launahækkun. Það var ósköp lítið en það var til þess að vinna gegn verðbólgu. Síðan hafa komið fram kröfur um miklu meiri launahækkanir og ég vil spyrja hv. þingmann hvort verið sé að skemma þá samninga sem gerðir voru í vetur.

Síðan sagði hv. þingmaður að það væri að verða til mynstur. Já, það er að verða til mynstur — í boðun verkfallsins. Áður var það þannig að menn beindu verkfalli gegn því fyrirtæki sem þeir unnu hjá. Núna eru verkföllin aðallega til að skaða þriðja aðila og helst sem allra mest. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki að það geti verið hættulegt fyrir láglaunastéttir, sem ekki geta skaðað þriðja aðila eins mikið, að þeir sem geta skaðað þriðja aðila mjög mikið fái hærri laun en þeir sem geta lítið skaðað sem eru oft og tíðum láglaunastéttir. Það er athyglisvert að bera saman leikskólakennara og flugvirkja í því sambandi.

Nú hefur komið í ljós eða hefur verið fullyrt í fjölmiðlum að flugvirkjar hafi fengið 80% hækkun frá nóvember 2006 á meðan félagar í ASÍ hafi fengið 52% sem segir mér að þessi kenning sé rétt, þ.e. þeir sem valda þriðja aðila mestu tjóni og miklu tjóni fá einfaldlega meiri launahækkanir.

Ég vil spyrja hv. þingmann, sem oft hefur talað um að hann sé fulltrúi láglaunastétta, hvort honum þyki þetta ekki uggvænleg þróun og hvort ekki sé ástæða til að skoða verkfallsréttinn, skoða hann, ekki að afnema hann.