143. löggjafarþing — 123. fundur,  18. júní 2014.

frestun verkfallsaðgerða Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair.

616. mál
[17:32]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Þetta er ekki flókið mál. Lög kveða skýrt á um að forseta ber að hafa samráð við okkur þingflokksformenn um dagskrá hverrar viku. Það hefur ekki verið gert. Lagaákvæðinu hefur ekki verið fylgt.

Það er rétt, sem fram kemur hjá hæstv. forseta, að samstarf við þingflokksformenn hefur verið með ágætum og ég kýs þess vegna að líta svo á að hér hafi einfaldlega verið um mistök að ræða. Ég hef óskað eftir því að úr því verði bætt með því að halda fund þingflokksformanna meðan á fundarhléi stendur vegna umfjöllunar um dagskrármálið í nefnd til að bæta úr.

Ég held að það yrði almennt til þess að greiða fyrir framhaldi málsins í dag. Ég skil satt að segja ekki, eftir að stjórnarandstaðan hefur brugðist vel við óskum meiri hlutans um að greiða hér fyrir framgangi mála, að menn skuli leyfa sér að koma fram með þeim hætti sem þeir hafa gert í dag.