143. löggjafarþing — 123. fundur,  18. júní 2014.

frestun verkfallsaðgerða Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair.

616. mál
[17:38]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég notaði ekki orðið tuða, það er ekki rétt, ég sagði það aldrei. Ég benti hins vegar á að ég teldi að stjórnarandstaðan væri að misnota aðstöðu sína þegar afar jákvæður hlutur gerist, að í stað setningar bráðabirgðalaga sé boðað til þingfundar, það er skoðun mín.

Ég hef ekki skilið orðræðuna öðruvísi en þannig að ástæðan fyrir því að menn vilji kalla saman þingflokksformannafund sé sú að fá fleiri mál á dagskrá. Mér finnst það einnig ósanngjarnt. Það er mín skoðun. Forseti ákveður með forsetabréfi að boða til þingfundar út af þessu eina tiltekna máli. Þar við situr og það verður rætt.

Þingflokksformenn geta hist. Ég tel reyndar að forseti hafi rökstutt sitt mál afar sannfærandi — og um hvað ætti sá fundur þá að snúast, (Forseti hringir.) þingsköp eða að fá fleiri mál á dagskrá? Því verður hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson að svara.