143. löggjafarþing — 123. fundur,  18. júní 2014.

frestun verkfallsaðgerða Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair.

616. mál
[17:41]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Vegna þess að hér hafa verið rædd samskipti þingflokksformanna við forseta vil ég að það komi fram úr ræðustól Alþingis að ég óskaði sérstaklega eftir því í samtali við forseta í gær að ráðherrar yrðu til svara í upphafi þingfundar, að hér yrði óundirbúinn fyrirspurnatími í hálftíma.

Ég fékk ekki svör við ósk minni og mér finnst miður að ekki skyldi hafa verið orðið við því, þegar við erum að kalla hér þing saman á óvenjulegum tíma, að víðtækara samtal gæti átt sér stað við framkvæmdarvaldið. Mér finnst fullkomlega eðlilegt að það geti gerst að þingfundur á óvenjulegum tíma sé ekki bara á forsendum framkvæmdarvaldsins og meiri hlutans.

Það var svo sem ekki eins og við hæstv. forseti værum í miklum rökræðum um þessa ósk en ég taldi hana borna upp á málefnalegum grunni. Mér finnst það mjög miður að sú beiðni skyldi að engu höfð. (Forseti hringir.)

Svo vil ég líka fyrir mína hönd og annarra hér taka undir ósk hv. þm. Helga Hjörvars um fund með þingflokksformönnum (Forseti hringir.) á meðan málið er til umfjöllunar í nefnd.

(Forseti (EKG): Forseti hefur gert ráðstafanir til að boða slíkan fund.)