143. löggjafarþing — 123. fundur,  18. júní 2014.

frestun verkfallsaðgerða Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair.

616. mál
[17:50]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki alveg 100% viss um hvernig ég eigi að svara þessu með ósanngirnina. Hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni finnst það ósanngjarnt að vera annars vegar sammála því að það eigi að vega og meta eitt tilvik en draga samt sem áður alltaf Herjólfslögin inn í þetta.

Ef ekkert hefði verið sagt á sínum tíma væri það kannski ósanngjarnt. En það var varað við þessu. Spurningin sem við stöndum alltaf frammi fyrir er: Hvað eru ríkir almannahagsmunir? Og þegar kemur að því að svo mikið sem storka félagafrelsinu, hvað þá að brjóta á félagafrelsinu sem verkfallsrétturinn er óhjákvæmilega hluti af, verðum við að bera sönnunarbyrðina. Eins og kom fram í síðustu ræðu minni í því máli og ég ítreka hér þá taldi ég hana ekki vera nógu ríka á þeim tíma. Það var einfaldlega ekki búið að sýna fram á að almannahagsmunirnir væru það ríkir að réttmætt væri að brjóta á þessum rétti. Þessi réttur er stjórnarskrárvarinn, hann er ekkert grín. Ég er ekki að segja að hv. þm. Höskuldur Þórhallsson láti eins og hann sé grín, ég er bara að segja að hann er mjög, mjög mikilvægur og við verðum að geta borið þessa sönnunarbyrði. Á þeim tíma taldi ég ekki að við hefðum gert það.

Hv. þingmaður spyr: Hefði átt að láta deiluna ganga áfram í tvær, þrjár vikur, hefði það breytt einhverju? Já, virðulegi forseti, auðvitað hefði það breytt einhverju. Þróun mála skiptir máli, það er svo einfalt. Auðvitað hefði það skipt máli.