143. löggjafarþing — 123. fundur,  18. júní 2014.

frestun verkfallsaðgerða Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair.

616. mál
[18:06]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef við erum öll mjög ósátt við þetta mál eigum við þann kost að falla frá lagasetningunni, en nú fer málið til nefndar eins og hæstv. ráðherra nefnir.

Varðandi gjaldtökuna hafa margoft komið fram staðhæfingar, rökstuddar með tilvísun í lög og lagatexta, þess efnis að hún sé ólögmæt. Ég hef hvergi séð því svarað af hálfu stjórnvalda að svo sé ekki, hvergi, að þetta standist lög með öðrum orðum.

Þegar lögreglan sér ölvaðan mann aka bifreið þá stöðvar hún bílinn og skoðar hvort ökumaðurinn sé ölvaður og ef svo reynist er hann ákærður. Ef maður lemur annan er ofbeldið stöðvað og síðan fer það sinn gang í dómskerfinu.

Ég hef furðað mig á því að í þessu tilviki, þar sem ég staðhæfi að verið sé að stela af ferðafólki, þegar hópur stigamanna hefur safnast saman við fallegustu náttúruperlur landsins til að hafa fé af fólki með ólögmætum hætti — þetta er kallað að stela, þetta er þjófnaður — skuli það ekki vera stöðvað.

Ég fagna því að hæstv. ráðherra skuli nú hafa lýst því yfir að málið verði tekið þeim tökum sem hér kom fram, að málið verði skoðað með tilliti til lögmætis eða ólögmætis. Ég vænti þess að í framhaldinu muni lögreglan grípa til aðgerða komi í ljós að þetta sé ólögmætt, eins og ég er sannfærður um að er.