143. löggjafarþing — 123. fundur,  18. júní 2014.

frestun verkfallsaðgerða Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair.

616. mál
[18:09]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst varðandi það sem nefnt er um lögbrotin og ferðamannastaðina. Þrátt fyrir að það sé heit sannfæring fyrrverandi innanríkisráðherra og fyrrverandi dómsmálaráðherra efast ég um að hann hefði nokkurn tímann skipað lögreglunni að gera hluti gagnvart einhverju sem hún teldi ekki lögbrot. Upplýsingarnar sem ég hef frá lögreglustjórum á viðkomandi svæðum þar sem þetta er innheimt eru þær að þeir bregðist ekki við vegna þess að þeir telji ekki að um lögbrot sé að ræða.

Við viljum auðvitað ekki setja hlutina í þann farveg. Fyrr í dag var spurt hvers vegna dómsmálaráðherra beiti sér ekki í því. Dómsmálaráðherra skipar lögreglunni ekki til verka hvað það varðar. En ég skal klárlega, og fer í það sem allra fyrst, óska frekari skýringa á því og fá það skriflegt þannig að hv. þingmaður fái slíkar upplýsingar.

Hv. þingmaður nefndi í byrjun að hægt væri að bakka út úr málinu ef öllum fyndist það ómögulegt sem við erum að vinna með hér í dag en hv. þingmaður, fyrrverandi ráðherra, veit það jafn vel og ég að í pólitík þarf stundum að gera fleira en gott þykir.