143. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2014.

frestun verkfallsaðgerða Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair.

616. mál
[21:35]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um frestun verkfallsaðgerða Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair ehf.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Björn Frey Björnsson og Sigurberg Björnsson frá innanríkisráðuneyti, Jón Sigurðsson, Maríus Sigurjónsson og Óskar Einarsson frá Flugvirkjafélagi Íslands, Svala Björgvinsson, Guðmund Pálsson og Björgólf Jóhannsson frá Icelandair ehf., Magnús Pétursson ríkissáttasemjara, Þorstein Víglundsson frá Samtökum atvinnulífsins, Magnús Norðdahl frá Alþýðusambandi Íslands, Ástráð Haraldsson og Hrafnhildi Stefánsdóttur.

Með frumvarpinu er lagt til að verkfallsaðgerðum Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair ehf. verði frestað. Lagt er til að aðilum verði gefið tækifæri til að semja sín á milli fyrir 1. júlí nk. en komist aðilar ekki að samkomulagi á þeim tíma skuli gerðardómur ákveða kaup og kjör fyrir 1. ágúst nk. Ákvörðun gerðardóms skuli gilda frá gildistöku laganna og eins lengi og gerðardómur ákveður. Meiri hlutinn bendir á að við ákvörðun um gildistíma ákvörðunar gerðardóms beri dóminum að horfa til lengdar þeirra kjarasamninga sem gerðir hafa verið á síðustu mánuðum. Á meðan gerðardómur er að störfum geta aðilar komist að samkomulagi um einstök ákvæði eða heildarsamning sín á milli og tekur þá gerðardómur ekki ákvörðun um þau atriði en takist aðilum að koma sér saman um einhver atriði á starfstíma dómsins skal dómurinn taka mið af því. Að öðru leyti skal gerðardómur við ákvörðun um laun aðila og önnur starfskjör hafa til hliðsjónar kjör annarra sem sambærilegir geta talist að menntun, störfum, vinnutíma og ábyrgð sem og kjarasamninga sem gerðir hafa verið nýlega og almenna þróun kjaramála.

Það er grundvallarregla að aðilar kjarasamninga ljúki samningum sín í milli, en þegar brýna nauðsyn ber til getur komið til þess að íhlutun löggjafans sé réttlætanleg. Þeirri íhlutun eru þó ákveðin takmörk sett með 74. gr. stjórnarskrárinnar og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem tryggja rétt launþega til aðildar að stéttarfélögum og hefur verkfallsrétturinn verið talinn falla þar undir. Íhlutun löggjafans er því aðeins réttlætanleg ef ríkir almannahagsmunir eru í húfi en þá þarf að gæta þess að ekki sé um of víðtæka eða langvarandi skerðingu á samningsrétti að ræða.

Líkt og fram kemur í athugasemdum við frumvarpið er um mikla efnahagslega hagsmuni að ræða fyrir þjóðarbúið. Ljóst er að verkfallsaðgerðir flugvirkja hefðu í för með sér víðtæka röskun á flugi til og frá landinu og gætu valdið íslensku efnahagslífi verulegu tjóni á mikilvægum tíma fyrir störf fjölda einstaklinga og fyrirtækja. Greiðar flugsamgöngur til og frá landinu eru mikilvægar fjöldamörgum fyrirtækjum og atvinnugreinum sem mundu verða fyrir áhrifum af verkfallsaðgerðum flugvirkja. Ekki á það eingöngu við um ferðaþjónustuna og sjávarútveginn heldur er um mun víðtækari áhrif á atvinnulífið að ræða. Efnahagslegt tjón af verkfallsaðgerðum getur því orðið verulegt. Þá kann áhrifa þeirra að gæta lengi. Það er mat meiri hlutans að þeir heildarhagsmunir sem í húfi eru séu það miklir að um ríka almannahagsmuni sé að ræða sem réttlæti inngrip löggjafans í þetta sinn á þann hátt sem lagt er til í frumvarpinu. Þó að málið sé að einhverju leyti líkt kjaradeilu Félags íslenskra atvinnuflugmanna og Icelandair ehf. sem stóð yfir í maí sl. telur meiri hlutinn rétt að árétta að vegna tímasetningar deilunnar í þessu máli megi færa rök fyrir því að um ríkari efnahagslega hagsmuni og almannahagsmuni sé að ræða.

Ekki virðist sem lausn finnist á kjaradeilunni í bráð. Henni var vísað til ríkissáttasemjara 16. apríl sl. en lítið hefur miðað í samningsátt þrátt fyrir 23 fundi aðila.

Í ljósi framangreindra sjónarmiða leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

1. Lokamálsliður 2. mgr. 2. gr. orðist svo: Sá sem tilnefndur er af Hæstarétti skal vera formaður dómsins og kallar hann dóminn saman.

2. Síðari málsliður 1. mgr. 3. gr. orðist svo: Jafnframt skal hafa til hliðsjónar, eftir því sem við á, kjarasamninga sem gerðir hafa verið á undanförnum mánuðum, meðal annars út frá gildistíma þeirra, sem og almenna þróun kjaramála hér á landi.

Undir nefndarálitið skrifa Höskuldur Þórhallsson formaður, Brynjar Níelsson, Birgir Ármannsson, Fjóla Hrund Björnsdóttir og Vilhjálmur Árnason.