143. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2014.

frestun verkfallsaðgerða Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair.

616. mál
[21:44]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mun ekki hafa hér langa ræðu enda fór hv. þm. Katrín Júlíusdóttir, framsögumaður nefndarálits minni hluta, vel yfir afstöðu okkar sem þar birtist í því áliti. Það sem mér finnst út af standa er að þegar við ræðum lagasetningu á verkfallsaðgerðir þarf hún, eins og fram hefur komið, að byggjast á ríkulegum almannahagsmunum. Um það hefur verið rætt að þá þurfi það koma til einhvers konar efnahagsleg vá. Eftir þann fund sem við höfum nú átt og þá kynningu sem við höfum fengið á málinu liggur fyrir að verkfallsaðgerðir munu valda atvinnugreininni, ferðaþjónustunni, verulegu tjóni. Það er ekki búið að færa fullnægjandi rök fyrir því að mínu mati að hér sé um efnahagslega vá að ræða eða lokun samgangna. Fyrir liggur að það eru ferðir til og frá landinu þannig að þau rök sem hafa verið færð fram fyrir því að hér sé um almannahagsmuni að ræða tel ég að þurfi að skerpa. Ég tel að það þurfi að skilgreina talsvert betur hvað þarf nákvæmlega mikið til þess að hægt sé að ráðast í jafn afdrifaríka aðgerð og hér er lagt til að fara í, þ.e. að skerða rétt manna til að beita verkfallsvopninu sem hefur verið lögbundinn réttur hér lengi, áratugum saman á vinnumarkaði, réttur sem var ekki fenginn léttilega. Þetta er ekki réttur sem var fenginn með því að vera hress, hann fékkst með mikilli baráttu á sínum tíma. Því þarf að ganga mjög varlega um þann rétt þegar rætt er að skerða hann með þessum hætti.

Eins og hv. þm. Katrín Júlíusdóttir fór ágætlega yfir er þetta þriðja lagasetningin í röð á þremur mánuðum vegna verkfallsaðgerða. Við hljótum að sjálfsögðu, þó að við skoðum aðstæður í hverju máli fyrir sig, að lýsa áhyggjum af því að hér sé um endurtekna lagasetningu að ræða. Við hljótum líka að velta því fyrir okkur sem alþingismenn hvort þessar aðgerðir muni veikja verkfallsréttinn til frambúðar og hvaða áhrif það hafi á frið á vinnumarkaði ef farið er með lögbundinn og stjórnarskrárbundinn rétt manna með þessum hætti. Hvaða áhrif hefur það á frið á vinnumarkaði til lengri tíma? Hvaða aðferðum verður þá beitt ef menn telja að verkfallsrétturinn dugi ekki til ef ávallt eru sett lög á verkfallsaðgerðir?

Það eru því vissulega ýmsir fyrirvarar sem er rétt að vekja athygli á. Ég ítreka það hins vegar að mér finnst eðlilegt að við setjumst saman yfir það verkefni að skoða umhverfi á vinnumarkaði. Ég vil líka segja það út frá því sem ég nefndi í ræðu minni fyrr í dag, sem kom fram á fundi nefndarinnar þó að í mjög stuttu máli væri, að umhverfi á vinnumarkaði mótast kannski að minnstu leyti af löggjöf heldur að meira leyti af menningu, hefðum og venjum. Þar skiptir því miklu máli, held ég, að samtal eigi sér stað þar sem bæði aðilar vinnumarkaðarins og stjórnmálaflokkar komi að málum.

Eins og fram kemur í nefndarálitinu höfum við fyrst og fremst dóminn frá 2002 til þess að styðjast við. Það er líka ljóst að sex vikna verkfall sjómanna er ekki að öllu leyti sambærilegt við það verkfall sem nú er í raun og veru ekki hafið í ferðaþjónustu. Það er líka ljóst að sex vikna verkfall sjómanna hafði mikil efnahagsleg áhrif og líklega mundu slík efnahagsleg áhrif hlaðast talsvert hraðar upp í þessum geira. En það breytir því ekki að við horfum til fordæmis þar sem um var að ræða sex vikna verkfall í stærstu útflutningsgrein landsins, vinnustopp og tekjustopp, og þá fyrst var gripið til lagasetningar. Hér er verkfall ekki hafið, þannig að á þessu hlýtur að vera munur þó að þetta séu ekki að öllu leyti sambærileg dæmi.

Ég hef tæpt hér á nokkrum atriðum og það er rétt sem kemur fram í uppprentuðu nefndaráliti að við þurftum því miður að ljúka spurningum okkar til síðustu gestanna frammi á gangi. Sá hraði sem þessi mál eru afgreidd á í gegnum þingið er okkur til umhugsunar og ég ítreka það sem ég hef sagt að miklu máli skiptir að við gefum okkur tíma fyrir samtal þegar í húfi eru grundvallarmannréttindi og stjórnarskrárvarin réttindi fólks.