143. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2014.

frestun verkfallsaðgerða Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair.

616. mál
[22:14]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Eins og kom fram í máli mínu, og kom reyndar fram fyrr í dag í máli hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, er sá flokkur tilbúinn til að taka þátt í umræðum og samtölum um hvaðeina sem lýtur að þessum málum. Við getum auðvitað ekki fyrir fram, á meðan við vitum ekki hvað er á borðinu, tjáð okkur hvorki (Gripið fram í.) fylgjandi né andsnúinn einhverju sem við vitum ekki hvað er. En að sjálfsögðu erum við reiðubúin í vinnu og umræður og skoðanaskipti um mál af þessum toga, bæði í einstökum starfshópum og vinnuhópum og ekki síst í pólitískri umræðu hér á þinginu.

Ráðherra nefndi að það væri hlutverk allra að reyna að tryggja frið á vinnumarkaði og ég er alveg sammála því að það er mikilvægt. En það má ekki verða þannig að menn líti svo á að beiting verkfallsvopnsins, eða þess vegna verkbannsvopnsins sem er auðvitað líka tæki á vinnumarkaði, verði með einhverju móti talin óeðlileg eða óæskileg. Þar erum við að tala um eina af grundvallarstoðum mannréttinda og ég tel mjög mikilvægt að sá réttur sé til staðar og sé virtur og að menn virði hann og geri ekki lítið úr honum, þannig að þó að stöku sinnum komi til átaka á vinnumarkaði sé það í sjálfu sér ekkert óeðlilegt eða óæskilegt. Það getur jafnvel verið hollt fyrir lýðræðið að á stundum komi til einhverra slíkra átaka.

Eins og ég hef þegar komið að í ræðu hafa menn auðvitað áhyggjur af því ef það fer að verða regla að blanda (Forseti hringir.) sér í vinnudeilur á fyrstu stigum þeirra og jafn vel áður en kemur til verkfallsaðgerða eins og í því dæmi sem hér um ræðir.