143. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2014.

frestun verkfallsaðgerða Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair.

616. mál
[22:17]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni kærlega fyrir ræðuna sem hann hélt áðan, hún var ágæt og yfirgripsmikil. Ég vil taka það fram að ég deili áhyggjum hv. þingmanns af því að nauðsynlegt skuli þykja að grípa inn í verkföll sí og æ.

Hv. þingmaður sagði að honum fyndist svolítið bratt af stað farið með því að setja lög á þessa tilteknu vinnudeilu núna. Um daginn þegar eins dags verkfall var hjá þessari sömu stétt kom í ljós að það hafði áhrif á 12.000 farþega hjá Flugleiðum. Þetta snýst ekki bara um farþega, þetta snýst líka um 90% af öllum ferskum fiski sem fluttur er á markað frá Íslandi.

Engin sátt var í sjónmáli að sögn þeirra sem sátu við samningaborðið. Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hefði hann talið æskilegra að við hefðum beðið í fimm daga eða viku eða eitthvað svoleiðis áður en við gripum til þess arna? Þetta hefði þá haft áhrif á 60.000 farþega eða svo. Þá hefðu áhrifin líka verið komin fram af því að markaðir fyrir ferskan fisk hefðu verið komnir í uppnám.

Þetta snýst ekki bara um eitt fyrirtæki, þetta snýst um allan ferðamannageirann. Þetta snýst um bílaleigur, hótel, rútufyrirtæki, þetta snýst um ríkið sjálft vegna þess að hver ferðamaður skilur eftir töluvert fé hér á landi.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Telur hann að rétt hefði verið að bíða í viku eftir því að þetta hefði áhrif á 60.000 ferðamenn, eða tvær vikur og hefði þá áhrif á 120.000 ferðamenn? Mig langar að heyra skoðun hv. þingmanns á því.