143. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2014.

frestun verkfallsaðgerða Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair.

616. mál
[22:19]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar vangaveltur og spurningar. Ég tel reyndar að það sem hann veltir hér upp gæti í sjálfu sér verið tilefni til alllangrar pólitískrar umræðu og skoðanaskipta. En það er auðvitað í þessu efni eins og svo oft að ekkert er algilt. Það er erfitt að fullyrða hver rétti tímapunkturinn er ef menn telja að slíkir hagsmunir séu í húfi að þeir þurfi að blanda sér í deilur. Það er erfitt að fullyrða hvenær nákvæmlega rétti tíminn er til þess. Er hann áður en verkfall skellur á? Er hann eftir að verkfall hefur staðið í sólarhring eða þá eftir lengri tíma?

Þá er það líka spurningin: Hvert er verðmætamatið sem undir liggur? Hv. þingmaður nefndi hér sjávarafurðir til útflutnings og annað slíkt og hægt er að mæla það í krónum og aurum. Þess vegna kallaði ég eftir því áðan að það vantaði það kjöt á beinið hér, að menn reiddu fram upplýsingar um það hvað nákvæmlega hver dagur telur fyrir þjóðarbúið.

Við vitum líka að ýmislegt hefur áhrif á gengi okkar á mörkuðum og ýmsar ráðstafanir stjórnvalda frá einum tíma til annars geta haft áhrif á það. Ég ætla að leyfa mér í þessu sambandi að nefna að ég tel til dæmis að stefna íslenskra stjórnvalda um langt skeið í hvalveiðum hafi áhrif á útflutningsmöguleika okkar og viðskipti víða um heim. Það er heimatilbúinn vandi, að mínu viti.

Þegar hv. þingmaður spyr mig hvort betra hefði verið að bíða þá get ég í sjálfu sér ekki svarað því. Mörg dæmi eru um það í kjaradeilum að skriður komist á samninga um leið og vinnustöðvun skellur á. Það er ekkert hægt að útiloka að það hefði gerst í þessu tilfelli líka. Hvað á að bíða lengi? (Forseti hringir.) Það er ómögulegt að fullyrða nokkuð um það en ég tel, eins og ég hef rakið hér, að íhlutun með þessum hætti hefði þurft að bíða eftir að vinnustöðvun væri skollin á.