143. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2014.

frestun verkfallsaðgerða Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair.

616. mál
[22:28]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að lýsa nokkurri undrun minni á ræðu hv. þingmanns. Til mín kom rétt áðan, fyrir nokkrum mínútum, flytjandi þessa máls, hæstv. innanríkisráðherra, og lýsti áhyggjum af því að hér væri umræða að teygjast á langinn. Hér kemur svo formaður nefndarinnar og setur á ræðu sem kallar á svör og skýringar.

Það lá fyrir eftir samtöl þingflokksformanna við forseta þingsins í kvöld að málið fengi fullnægjandi meðferð í nefnd. Um það var rætt milli þingflokksformanna og forseta þingsins. Það er óhjákvæmilegt, fyrst formaður nefndarinnar kemur hér upp með ásakanir á aðra, að rekja þessa sögu alla.

Engu að síður ákveður formaðurinn að beita klukkureglu við meðferð málsins í nefndinni með þeim afleiðingum að fulltrúar stjórnarandstöðunnar fá ekki tækifæri til að spyrja spurninga. Og það eru engir smágestir sem þeir fá ekki tækifæri til að spyrja, þeir fá ekki tækifæri til að spyrja okkur helstu vinnuréttarsérfræðinga og fulltrúa Alþýðusambandsins og Samtaka atvinnulífsins. Ég veit ekki til hvers nefndarstarf er í máli sem þessu ef þingmenn eiga ekki að fá að beina einni spurningu til Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambandsins og helstu vinnuréttarsérfræðinga landsins.

Þess vegna þurftu menn að hlaupa fram á gang til að koma spurningum á framfæri og fá svör. Þess vegna er vísað í þau svör í nefndarálitinu og þess látið getið að þau hafi fengist frammi á gangi.

Ég held að það sé full ástæða til þess. Ef ríkisstjórnin ætlaði eitthvað með því að láta þetta mál fara til þinglegrar meðferðar frekar en að beita bráðabirgðalagaheimild þá hlaut það að eiga fá boðlega þinglega meðferð. Það lá fyrir að boðleg þingleg meðferð mundi fela í sér alvörunefndarvinnu. Ég kalla það ekki alvörunefndarvinnu ef fulltrúar minni hlutans í nefndinni fá ekki tækifæri til að spyrja (Forseti hringir.) forustu Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins spurninga.