143. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2014.

frestun verkfallsaðgerða Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair.

616. mál
[22:30]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Bara svo ég árétti það var samkomulag um það, eða að minnsta kosti voru ekki gerðar neinar athugasemdir við það í upphafi fundar og þegar gestir komu fyrir nefndina, að fyrirkomulag yrði þannig að hver og einn aðili fengi 30 mínútur.

Ástæðan fyrir því að ég stöðvaði fund var sú að ég vildi gæta fulls jafnræðis á milli allra aðila. Ég hafði ítrekað sagt á fundi nefndarinnar að ég mundi hafa þann háttinn á, jafnvel þó að spurningar stæðu út af borðinu. Ég hafna því algjörlega að málsmeðferðin hafi verið slæm og bendi á að við kölluðum þó fyrir Samtök atvinnulífsins og fulltrúa frá ASÍ, en sá háttur var ekki viðhafður hér fyrir fjórum árum.