143. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2014.

frestun verkfallsaðgerða Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair.

616. mál
[22:35]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta getur verið mjög stutt. Það sem ég var bara að velta fyrir mér áðan, þegar ég nefndi þetta með málsmeðferðina í nefndinni, er að ég skil ekki hvað vakti fyrir formanninum þegar hann sleit fundi og heimilaði ekki þær spurningar sem óskað var eftir. Ég skil vel að menn vilji setja ramma utan um nefndarstarfið og setja sér viðmið en það getur ekki verið svo þröngt að nefndarmenn geti ekki klárað spurningar sínar. Það að þeir málsaðilar sem komi fyrir nefndina fái nákvæmlega upp á mínútu sama tíma hlýtur að ráðast dálítið af því hvaða spurningar þeir fá og við hverja einstakir nefndarmenn vilja helst ræða. Ef tiltekinn aðili sem kemur fyrir nefndina fær meira af spurningum og þarf að útskýra mál sitt betur fyrir nefndarmönnum þá verður það að hafa sinn gang. En ég ætla ekki að hafa frekari umræður af minni hálfu um þetta.