143. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2014.

frestun verkfallsaðgerða Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair.

616. mál
[22:37]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp til laga um frestun verkfallsaðgerða Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair. Ég vil draga fram grundvallarspurningar um hvert við stefnum hvað varðar verkfallsrétt launþega, að við hífum okkur aðeins upp fyrir umræðu um form og nefndarstarf og annað því um líkt, sem mér finnst ekki vega eins þungt þegar verkfallsrétturinn er til umræðu.

Við vitum það öll hér inni að hann var ekki auðfenginn og mikið þurfti að hafa fyrir honum. Þess vegna finnst mér tími kominn til að Alþingi — miðað við það sem á undan er gengið, þetta er þriðja lagasetningin á verkföll á þrem mánuðum — taki umræðu um þessa hluti með þeim aðilum sem í hlut eiga, aðilum vinnumarkaðarins, um hvert við teljum að við eigum að stefna varðandi þessi mál.

Mér finnst heiðarlegra að tala hreint út í þeim efnum. Eru stjórnvöld að tala um það í fullri alvöru að skerða eigi verkfallsrétt frá því sem nú er? Ef svo er þá á að segja það hreint út. Það á ekki að koma mönnum á óvart að upp komi aðstæður af því tagi sem við stöndum frammi fyrir núna. Hvað vilja menn segja við stéttir sem hafa vissulega sterk vopn í hendi varðandi verkfallsréttinn? Tölum bara íslensku. Erum við þá að segja að slíkar stéttir eigi ekki að hafa verkfallsrétt? Ég get spurt þingheim: Hvenær gætu flugvirkjar hugsanlega farið í verkfall án þess að það hefði áhrif á efnahagslíf þjóðarinnar og almannahagsmuni? Hvenær væri það? Er um einhver slík tilfelli að ræða? Eða erum við að segja að stétt eins og flugvirkjar hafi ekki verkfallsrétt vegna þess að undirliggjandi séu svo ríkir almannahagsmunir og þvílík áhrif á efnahagslíf þjóðarinnar? Erum við að segja að flugvirkjar geti ekki beitt stjórnarskrárvörðum grundvallarmannréttindum, þeim að geta beitt verkfallsvopninu þegar mönnum þykir þörf á, þegar allt annað er fullreynt og löglega að því staðið eins og í þessu tilfelli?

Frá því að verkfall var sett á undirmenn á Herjólfi — þá var verið að lækka þröskuldinn niður í ekki neitt, með mati á efnahagslegum afleiðingum og almannahagsmunum — finnst mér að allar stéttir í þessu þjóðfélagi gætu flokkast undir það sama. Ég tel það vera atlögu að verkfallsréttinum, sem er grafalvarlegur hlutur. Við megum ekki ganga þannig fram að hægt sé að klippa á löglega boðaðar aðgerðir með lögum, og það meira að segja áður en til verkfalla kemur.

Ég vil ekki sem alþingismaður hafa það vald að vega og meta, eftir stétt og stöðu og eftir tekjum viðkomandi stétta hverju sinni, hverjir eigi rétt á að beita verkfallsvopninu. Það á ekki að vera þannig. Ég tel að láglaunafólk í landinu, sem hefur vissulega mjög sjaldan beitt verkfallsvopni sínu, sé ekkert betur sett með það að verið sé að beita lögum á verkföll stétta sem hafa eitthvað hærri laun.

Það kom fram í dag að laun flugvirkja gætu verið rúmar 600 þús. kr. á mánuði, álíka og hinn almenni alþingismaður hefur. Það eru ekkert lág laun en það eru laun sem eru kannski álíka og margar millistéttir í landinu hafa. Ég er mjög hugsi yfir þessu því að mér finnst andrúmsloftið og umræðan vera orðin þannig að þetta sé eitthvað sem Alþingi eigi bara að grípa inn í. Vísað er til þess að skoða vopn í þessum málum og styrkja stöðu ríkissáttasemjara. Gott og vel, það má ræða alla hluti. En það á ekki að ræða þá án aðkomu vinnumarkaðarins og aðkomu stéttarfélaganna — það kostaði forfeður okkar blóð, svita og tár að berjast fyrir þessum rétti.

Ég vísa því til ykkar allra hér inni, hv. alþingismanna, að hugsa þessi mál í stærra samhengi, hefja okkur upp yfir argaþrasið. Hvar viljum við vera stödd í mannréttindaflóru þjóðanna varðandi þessi mál? Ég vil að við séum stolt af því að geta varið þessi grundvallarmannréttindi en höfum ekki löggjafann að vopni í því að höggva þau mannréttindi niður í skjóli þess að að þar liggi almannahagsmunir, því að þeir geta átt við í öllum tilfellum.

Mér fannst mjög undarlegt að heyra hæstv. ráðherra nefna að það væri mjög slæmt að þurfa að beita lögum á verkföll gagnvart einkaaðilum. Út af hverju er það eitthvað öðruvísi en gagnvart opinberum aðilum? Ég spyr. En ég vil verja þennan grundvallarrétt launþega, verkfallsréttinn, og leggst gegn því frumvarpi sem hér er lagt fyrir Alþingi.