143. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2014.

aflýsing vinnustöðvunar flugvirkja.

[23:33]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir það hlé sem gert var á umræðunni, sem ræðst af því að nokkrar breytingar hafa orðið á því máli sem við höfum rætt hér í dag. Ég vil upplýsa þingheim um að tilkynning hefur nú borist frá Flugvirkjafélagi Íslands til ríkissáttasemjara og viðsemjenda þeirra, þ.e. Samtaka atvinnulífsins.

Ég ætla, með leyfi virðulegs forseta, að lesa bréfið upp. Það er dagsett 18. júní 2014 og yfirskriftin er Aflýsing vinnustöðvunar:

„Vísað er til tilkynningar Flugvirkjafélags Íslands til ríkissáttasemjara og viðsemjenda, Samtaka atvinnulífsins, fyrir hönd Icelandair, dagsett 5. maí sl., um boðun tímabundinnar vinnustöðvunar flugvirkja hjá Icelandair 16.–17. júní sl. og ótímabundinnar vinnustöðvunar frá og með kl. 6 hinn 19. júní nk.

Með bréfi þessu tilkynnist að Flugvirkjafélag Íslands aflýsir hér með umræddri boðaðri vinnustöðvun, sbr. 4. mgr. 15. gr. laga nr. 80/1938. Af því leiðir að boðaðri ótímabundinni vinnustöðvun flugvirkja hjá Icelandair frá og með 19. júní nk. er hér með aflýst.“

Þetta tilkynnist hér með.

Bréfið er undirritað af formanni félagsins og formanni samninganefndar Flugvirkjafélags Íslands.

Virðulegur forseti. Ég fagna þessari niðurstöðu og tel að þing hljóti líka að fagna henni. Í framhaldinu legg ég til að atkvæðagreiðslu um frumvarpið verði frestað enda hafa forsendur breyst og vilji til samninga er greinilega til staðar.

Ég legg því til við þingheim að frumvarp það sem ég hef mælt hér fyrir verði ekki afgreitt heldur gefum við samningsaðilum þann tíma sem nú hefur verið óskað eftir. Ég vil ítreka þakkir til Flugvirkjafélagsins um þann vilja sem birtist hér og vona innilega að samningar takist án þess að Alþingi þurfi að beita sér í því máli.