144. löggjafarþing — 2. fundur,  10. sept. 2014.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[20:28]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Góðir landsmenn. Í kvöld ræðum við um stöðu þjóðmálanna, um hvort við séum á réttri leið til aukinnar hagsældar og betra samfélags. Á þessum vettvangi hefur alla tíð verið tekist á og deilt um hvað ríkisvaldið eigi að gera og hvað ekki þjóðinni til heilla.

Herra forseti. Þessi ríkisstjórn hefur frá fyrstu dögum sínum lagt áherslu á að lækka skatta og létta þar með skattbyrði einstaklinga og atvinnulífs. Um leið hefur það verið yfirlýst markmið að einfalda regluverk og tryggja að íþyngjandi aðgerðum sé mætt með afnámi annarra. Í þessari stefnu kristallast munurinn á núverandi ríkisstjórn og þeirri síðustu sem gerði á annað hundrað breytingar á skattkerfinu langflestar í formi hækkunar eða nýrra skatta. Nú þegar við hefjumst handa strax í upphafi kjörtímabilsins við að vinda ofan af þeim skattahækkunum er sagt að við séum að veikja tekjustofnana. Í okkar huga erum við að létta byrðum af heimilum og fyrirtækjum.

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur sett hag heimilanna í forgrunn. Það höfum við gert með markvissum aðgerðum til að auka ráðstöfunartekjur þeirra. Samanlögð áhrif skattalækkana á árunum 2014 og 2015 ásamt hækkun bóta og lækkun húsnæðisskulda skila einstaklingum um 40 milljörðum kr. í hærri ráðstöfunartekjur borið saman við árið 2013. Þeir 40 milljarðar samsvara um 5% aukningu frá ráðstöfunartekjum eins og þær voru þegar vinstri stjórnin fór frá.

Hin augljósu sannindi eru að háir skattar draga úr elju og krafti einstaklinga og þar með verðmætasköpun efnahagslífsins alls. Það leiðir á endanum til þess að háir skattar skila æ minni tekjum til að standa undir þjónustu ríkisins við allan almenning. Hækkandi skattar vinstri stjórnarinnar hafa ekki skilað sér í sterkari tekjugrunni. Almenna þrep virðisaukaskattskerfisins er hið næsthæsta í heimi, en skilvirkni virðisaukaskattskerfisins er of lítil og við sjáum að þessi öfluga tekjulind ríkissjóðs, virðisaukaskatturinn, hefur gefið eftir hin síðari ár.

Hæstv. forseti. Góðir landsmenn. Nú liggja fyrir þinginu tillögur um að draga úr mun milli skattþrepa í virðisaukaskattskerfinu og fækka undanþágum með því að taka inn afþreyingarferðir sem tíðkast víða í ferðaþjónustunni. Einnig er lagt til að almenn vörugjöld verði afnumin, en þau eru t.d. á sykraðri matvöru, ýmsum nauðsynlegum heimilistækjum, sem er að finna á hverju einasta heimili landsmanna eins og þvottavélum og ísskápum, byggingarvörum og smærri raftækjum. Talandi um einföldun — það felst einföldun í því að afnema þessa löngu úreltu neyslustýringu. Það verður þá ekkert 15% vörugjald t.d. á varahluti í bíla. Það verður heldur ekki 20% vörugjald á þessi algengu heimilistæki og ekkert 25% vörugjald á stærri raftæki. Samanlagðir neysluskattar á sjónvörp, sem mönnum þykir vinsælt að nefna í þessari umræðu, eru rétt um 70%. Það er kominn tími til að fella þá ofurskattlagningu niður á tæki sem er hægt að finna inni á hverju einasta íslenska heimili.

Heildaráhrif breytinganna eru til lækkunar á verðlagi. Efra þrep virðisaukaskattsins verður lægra en nokkru sinni fyrr, 24%. Aldrei frá stofnun virðisaukaskattskerfisins hefur efra þrepið verið lægra. Það lækkar úr 25,5%. Neðra þrepið sem fram til ársins 2007 var í 14% en er nú 7% hækkar um fimm prósentustig. Heildarhækkun matvöruverðs nemur þó ekki fimm prósentustigum vegna mótvægisáhrifa vörugjaldaafnámsins. Ástæðan er sú að vörugjaldið leggst á alla sykraða matvöru og vörur með sætuefnum og hækkar þannig verð á ýmsum algengum vörutegundum.

Þannig bera til dæmis ýmsar algengar mjólkurvörur sykurgjaldið. Þetta eru innlendar framleiðsluvörur, virðulegur formaður Vinstri grænna. Innlend framleiðsla. Kannast einhver við að hafa keypt ABT-mjólk úti í búð í (Gripið fram í: Já.) mjólkurkælinum? Hún ber þetta sama vörugjald. Það verður fellt niður. Það verður því ekki fimm prósentustiga hækkun eins og hækkun virðisaukaskattsins gæti gefið til kynna, heldur milli 2,5 og 3%, en þar verður ekki látið við sitja.

Afnám vörugjaldsins er bara ein mótvægisaðgerðin sem ríkisstjórnin ætlar að beita. Fleira verður gert. Við munum meðal annars hækka barnabæturnar og þannig munum við vega upp áhrif hækkunar neðra þrepsins og gott betur.

Rétt er að taka fram að með afnámi sykurskattsins er ekki verið að taka neina afstöðu með sykurneyslu, síður en svo. Staðreyndin er sú að þetta gjald leggst einfaldlega með þriggja milljarða þunga á íslensk heimili. Þetta gjald, sem komið var á undir formerkjum neyslustýringar eða í búningi lýðheilsumarkmiða, hefur engan veginn náð þeim tilgangi og var aldrei líklegt til þess. Þetta var einfaldlega enn einn skatturinn á íslensk heimili sem er tímabært að afnema. Það munum við gera með þeim tillögum sem liggja fyrir þinginu til hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Það má líka skjóta því hér inn í til að átta sig betur á stærðum í þessu samhengi að niðurfelling vörugjalda á matvæli vegur þyngra en allir tollar samanlagt á matvæli. Tollar á matvæli eru um 2 milljarðar kr. á ári. Vörugjaldið um 3 milljarðar. Þetta er þannig risastór aðgerð sem mun gilda til framtíðar. Í lækkun á niðurfellingu tolla gæti einnig falist tækifæri til að lækka matvöruverð til neytenda og þau mál á að taka til skoðunar, en fyrst og fremst á þeirri forsendu að nýta þau sóknarfæri sem við eigum til útflutnings matvæla inn á önnur neyslusvæði. Það mun opna tækifæri til að gera breytingar íslenskum heimilum og íslenskum framleiðendum til heilla.

Við skulum einnig hafa í huga í þessu sambandi að í núverandi kerfi hagnast tekjuhá heimili meira en tekjulág á lægra skattþrepi virðisaukaskatts. Tekjuhærri heimili verja hærri fjárhæðum og kaupa dýrari vöru en tekjulægri heimili. Tekjuháir greiða því skatt af mun stærri stofni og hagnast meira í krónum talið á lágu skatthlutfalli. Svona er þetta samkvæmt þeim rannsóknum sem gerðar hafa verið af þeim stofnunum sem við erum vön að treysta í umræðu um þessi mál eins og Hagstofunni. Ekkert af því breytir því að það er sjálfstætt markmið að halda matvöruverði á Íslandi lágu, m.a. með því að efla samkeppni.

Meginatriðið er að neysluskattar á matvæli eru slæm leið til að ná fram tekjujöfnuði í samfélaginu til að styðja við tekjulága hópa. Miklu árangursríkara og skilvirkara er að styðja við tekjulægstu þjóðfélagshópana með beinum aðgerðum í gegnum bóta- og styrkjakerfið og eftir atvikum tekjuskattskerfið.

Með afnámi vörugjalda samhliða breytingum á virðisaukaskattinum og hækkun barnabóta um 13% eru heildaráhrifin þau fyrir einstaklinga og fjölskyldur að ráðstöfunartekjurnar hækka um 0,5% og verðlag lækkar um 0,2%. Það lækkar verðlagið, hækkar það ekki eins og gerðist þegar sykurskattinum var komið á á sínum tíma. Það var metið á þann veg, þegar vinstri stjórnin kom sykurskattinum á, að skuldir heimilanna hefðu hækkað um milljarð og ABT-mjólkin hækkaði þá um 3%. Þetta er því aðgerð sem ekki er síst mikilvæg fyrir þá sem skulda verðtryggð lán.

Öll þau dæmi sem fjármálaráðuneytið hefur lagt til grundvallar og birt samhliða fjárlagafrumvarpinu eru jákvæð hvað ráðstöfunartekjur varðar, hvort sem um er að ræða barnlausar eða barnafjölskyldur. Þetta kalla ýmsir gagnrýnendur breytinganna skattahækkun. Það getur svo sem átt sér ýmsar skýringar.

Ef til vill hafa fulltrúar þeirra flokka sem gengu svo hart fram í skattahækkunum á síðasta kjörtímabili afneitað með öllum möguleikanum á skattahækkunum, að það hafi gengið svo langt að þeir þekki hreinlega ekki lengur skattalækkun þegar þeir sjá hana.

Með þessum breytingum verður virðisaukaskattskerfið styrkara og skilvirkara og með því getum við búið í haginn fyrir frekari lækkun á beinum sköttum á einstaklinga. Við getum eflt tekjuöflun til framtíðar litið til að greiða fyrir sameiginleg verkefni þjóðfélagsins og síðast en ekki síst aukið jafnræði milli atvinnugreina.

Herra forseti. Hagtölur bera aukinni hagsæld vitni. Hærra atvinnustig, vaxandi atvinnuvegafjárfesting, stöðugleiki í verðlagi og hagvöxtur sem samanburðarríki okkar renna öfundaraugum til. Þetta er rammi ríkisfjármálaáætlunarinnar til næstu ára. Jafnvægi hefur náðst í ríkisfjármálunum. Skuldasöfnun ríkissjóðs hefur verið stöðvuð. Á næstu árum halda skuldir áfram að lækka sem hlutfall af landsframleiðslu. Verðbólga er sögulega lág. Hún hefur verið samfellt undir verðbólgumarkmiðum Seðlabanka Íslands meiri hluta ársins 2014. Þá fara lánskjör ríkisins batnandi. Það ber skuldabréfaútgáfa á Evrópumarkaði um miðju ári vitni um. Atvinnuleysi fer minnkandi. Ný störf eru að verða til. Ráðstöfunartekjur einstaklinga hafa hækkað. Spáð er góðum hagvexti á næstu árum. Þetta styður við hið brýna verkefni að afnema höft af íslensku efnahagslífi. Að öðru ólöstuðu er það eitt mikilvægasta verkefni ríkisstjórnarinnar á næstu missirum ásamt því að treysta betur umgjörð efnahagslífsins til að búa í haginn fyrir arðbærar fjárfestingar í atvinnulífinu. Það er sú aukna verðmætasköpun sem við þurfum á að halda til að bæta hér lífskjör og styrkja velferðarkerfið.

Góðir landsmenn. Í vetur eru lausir kjarasamningar milli aðila vinnumarkaðarins. Mikið veltur á að öllum sem hlut eiga að máli auðnist að treysta í sessi þann stöðugleika sem náðst hefur svo að áfram megi ganga veginn til aukinnar velferðar og varanlegrar hagsældar. Það er enginn einn aðili sem ber ábyrgð á að tryggja stöðugleika. Þetta er sameiginlegt verkefni. Vinnuveitendur geta ekki einhliða kallað eftir ábyrgð launþegahreyfingarinnar á sama tíma og laun stjórnenda hækka. Að sama skapi er það ríkisvaldsins að tryggja að jafnvægi ríki milli þess sem gerist á almenna vinnumarkaðnum og hinum opinbera. Um þau grunnatriði verður að vera samstaða þótt hart sé tekist á um kaup og kjör.

Með hallalausum fjárlögum og aðhaldi í rekstri, skattalækkunum og öðrum aðgerðum sem skila sér í auknum ráðstöfunartekjum almennings og lækkun á verðlagi, ásamt auknum framlögum í bóta- og styrkjakerfið — já, við höfum stóraukið framlög í bóta- og styrkjakerfin. Við höfum sett á milli 13 og 14 milljarða til þess að mæta fjölgun öryrkja, eldri borgara, til þess að bæta upp fyrri verðlagshækkanir og draga úr skerðingum síðustu ára. Þetta höfum við allt gert á okkar fyrsta ári. Allar þessar aðgerðir eru til þess fallnar að bæta ráðstöfunartekjur, auka hagsæld heimilanna og okkur miðar á grundvelli þessarar stefnu í rétta átt þjóðinni til heilla.