144. löggjafarþing — 2. fundur,  10. sept. 2014.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[21:00]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Kæru landsmenn. Eftir 15 mánaða setu ríkisstjórnarinnar hefur orðið algjör viðsnúningur hér á landi. Það er hlutverk stjórnvalda að forgangsraða í ríkisrekstri og ráðstafa skattfé í grunnstoðir samfélagsins. Samtímis og ráðist var í sparnaðaraðgerðir og forgangsröðun fyrir fjárlagaárið 2014 var stefnan sett á hallalaus fjárlög í fyrsta sinn um langa hríð og í frumvarpi til fjárlaga fyrir 2015 er gert ráð fyrir afgangi.

Vinnan gengur afar vel.

Þessi agi eykur traust á landi og þjóð – innan lands sem utan – og er sérstaklega mikilvægt að sýna þetta aðhald fyrir lánardrottna ríkisins því að eitt af forgangsmálunum er að greiða niður skuldir til að ná himinháum vaxtagjöldum ríkisins niður. Stóra málið er, eins og minnst hefur verið á hér í kvöld, losun gjaldeyrishafta og samningar við kröfuhafa og áríðandi er að vel takist til því að allt er undir í því máli. Því eru afar mikilvægir tímar fram undan fyrir okkur öll og áríðandi að standa saman þjóðinni til heilla.

Þessi vinna er langhlaup og krefst aga, festu og framsýni. Víða má spara, sameina og hagræða. Það krefst kjarks og dugs að leggja til og fylgja eftir breytingum á kerfi sem hefur byggst upp í áratugi. Almenni vinnumarkaðurinn fæst við slíka endurskoðun á hverjum degi og því er brýnt að sækja fordæmi og þekkingu þangað. Einnig er nauðsynlegt að auka og auðvelda streymi vinnuafls frá hinu opinbera inn á almenna vinnumarkaðinn því að þar verða hinar raunverulegu skatttekjur til með verðmætasköpun.

Bjartsýni, von og trú á íslenskt samfélag hefur náð rótum á ný, þ.e. fyrir utan það sem framtíðarsýn hv. þm. Árna Páls Árnasonar hefur að segja. Hann kom hér fram og sá allt svart í kvöld en það verður að bíða betri tíma að útskýra fyrir hv. þingmanni í hverju þetta felst. Staðfesta og skýr framtíðarsýn skiptir sköpum. Segja má að fjárlög hvers árs séu takmörkuð auðlind. Ofnýting hennar, stöðug framúrkeyrsla kemur niður á komandi kynslóðum. Sviðið allt verður að skoða með heildarsýn að leiðarljósi en ekki einblína á einstaka, afmarkaða þætti. Ef bætt er í fjármagni á einum stað verður að færa það frá öðrum minna mikilvægum málaflokkum til að vera innan fjárlagaramma með forgangsröðun að leiðarljósi.

Það er skylda ríkisvaldsins að forgangsraða í ríkisrekstri og hafa skatta hóflega til að samfélagssáttmálinn um viljann til að greiða skatta rofni ekki. Ekkert fer verr með samfélög en svört atvinnustarfsemi, undanskot og bótasvik. Því verðum við öll að standa saman að skilvirku samfélagi. Viljinn til vinnu og virkrar þátttöku í samfélaginu er forsenda hagvaxtar og velgengni þjóðarinnar, enda er það gleðiefni að atvinnuleysi er á hraðri niðurleið sem þýðir að ríkið leggur sífellt minna fjármagn til atvinnuleysisbóta. Á sama hátt verður að sporna við skatt- og bótasvikum svo þeir sem raunverulega þurfa framfærslu ríkisins njóti hennar með reisn. Hafa skal hugfast að fyrir hverja krónu sem borguð er í bætur hefur annar einstaklingur lagt hana til í formi skatta með atvinnu sinni. Ekkert er mikilvægara en að halda áfram að byggja hér heilbrigt og þróttmikið samfélag eftir áföll liðinna ára okkur öllum til heilla.

Virðulegi forseti. Staða okkar fallegu eyju á landakorti heimsins verður seint fullþökkuð og erum við svo lánsöm að deila stærstu ferskvatnsbirgðum heimsins með öðrum ríkjum á norðurslóð. Vatn er forsenda alls lífs – víða er orðinn hættulega mikill vatnsskortur. Við eigum gnótt tækifæra í öðrum mikilvægum náttúruauðlindum og okkur ber skylda til að nýta þær í sátt við umhverfið til að byggja upp samfélagið. Við eigum ekki að gefa afslátt af okkar eftirsóttu grænu orku.

Mikil tækifæri liggja í nýsköpunar- og frumkvöðlafyrirtækjum og því er stórsókn ríkisstjórnarinnar á þessu sviði í gegnum Vísinda- og tækniráð lykilþáttur í aukinni hagsæld til langrar framtíðar.

Virðulegi forseti. Árangur ríkisstjórnarinnar á þeim skamma tíma sem liðinn er frá kosningum er mikill. Við stöndum vörð um heimilin, atvinnutækifærin og fjölskyldurnar í landinu. Verkefnin eru margbreytileg og það eykur festu að stjórnvöld hafi skýra sýn á efnið og viti hvert stefnt er. Við horfum bjartsýn til framtíðar, tækifærin eru okkar allra. – Ég óska okkur góðra stunda.