144. löggjafarþing — 2. fundur,  10. sept. 2014.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[21:06]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Kæru Íslendingar. Stór orð og fögur fyrirheit vantar ekki hjá þeirri ríkisstjórn sem nú situr. Það voru mörg fögur orð í þeirri ræðu sem við heyrðum hjá hæstv. forsætisráðherra landsins. Þau voru mörg og fyrirheitin líka.

Vandinn er bara sá að reynslan hefur sýnt okkur að það er ekkert samband milli orða og efnda hjá þessari ríkisstjórn.

Heimsmetið í skuldaleiðréttingunum sem greitt yrði af ljótum hrægömmum utan úr heimi varð að lítilli mús sem eingöngu sumir fá að njóta þó að hún sé fjármögnuð af skattgreiðendum öllum og komandi kynslóðum. Munið þið eftir afnámi verðtryggingarinnar sem Framsóknarflokkurinn hélt fram að hægt væri að gera eins og hendi væri veifað? Hið eina sem sést hefur af því fagra fyrirheiti er skýrsla þar sem lagt var til bann við einum eða tveimur lánaflokkum. Hærri virðisaukaskattur á matvæli kom alls ekki til greina, sagði forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins árið 2011, en í dag fer hann fyrir ríkisstjórn sem leggur til 5 prósentustiga hækkun á matvælum, bókum, þar með talið skólabókum, heitu vatni og rafmagni, sem sagt helstu nauðsynjavörum íslenskra heimila.

Og hvers vegna er það gert?

Jú, fjármálaráðherrann Bjarni Benediktsson segir okkur að það sé gert til að einfalda skattkerfið. Einföldun — þetta er fallegt orð og jákvætt. Ég er mjög til í alls konar einföldun og ég held að við séum það flest. En hver er einföldunin í þessu tilfelli? Það eru áfram tvö skattþrep, annað sem hækkar um 5 prósentustig og hitt sem lækkar um 1,5 prósentustig.

Hver er einföldunin í því að hækka skatta á matvörur en lækka skatta á sjónvörp? Þessar vörur eru enn hvorar í sínu þrepinu.

Hver er einföldunin í því að hækka skatta á hita og rafmagn en halda laxveiði utan virðisaukaskattskerfisins? Þessi þjónusta er enn hvor í sínu þrepinu.

Ekki mun hækkun á nauðsynjavörum heldur einfalda líf íslenskra heimila. Það liggur fyrir. Höldum þá áfram að leita að þessari einföldun sem mönnum verður svona tíðrætt um. Ekki er verið að einfalda líf íslenskra námsmanna með því að hækka skatta á skólabækur, fækka greiddum nemendaígildum í framhalds- og háskólum ofan á þá hækkun sem átti sér stað á skólagjöldum á þessu ári. Ekki er heldur verið að einfalda líf þeirra ólánsömu sem leggjast þurfa inn á sjúkrahús og þurfa nú að fara að borga fyrir lyfin þar, ekki frekar en hækkun komugjalda einfaldaði líf þeirra sem þurfa á heilbrigðiskerfinu að halda á þessu ári.

Hvað er þá verið að einfalda? Svarið við þessari spurningu er að finna í fjárlagafrumvarpinu sem kynnt var í gær. Þar birtast efndir fögru fyrirheitanna. Það er verið að einfalda skattkerfið með því að leggja af auðlegðarskatt og lækka veiðigjöld. Og þessi einföldun er greidd af sjúklingum, námsmönnum og íslenskum heimilum. Breiðu bökin eru fundin, kæru Íslendingar, nú er komið að íslenskum heimilum að fylla upp í gatið sem einföldun hægri manna á skattkerfinu hefur í för með sér.

Kæru Íslendingar. Á meðan þessi ríkisstjórn situr sveitt við það að einfalda skattkerfið fyrir hina efnameiri með því að þyngja byrðarnar á meginþorra íslenskra heimila er hún ekki að gera neitt í stærsta lífskjaramáli samtíma okkar og framtíðarkynslóða, nefnilega að móta peningastefnu til lengri tíma. Stefnuna sem nú er rekin mætti kannski helst kalla „Vonum það besta með íslensku krónunni“. Það er gríðarlega dýr stefna fyrir íslensk heimili því að íslensku krónunni fylgja háir vextir að ógleymdri verðtryggingu.

Með annarri hendi stendur síðan ríkisstjórnin að skuldalækkunum til sumra heimila og með hinni gerir hún ekkert til að sporna við því að lækkanirnar étist upp í verðbólgu. Það er gat á þessum poka peningakerfisins, menn vita það en hafa ákveðið að gera ekkert í því. Þess vegna er stærsta hagsmunamál íslenskra heimila og fyrirtækja nú gjaldmiðill sem virkar í frjálsum viðskiptum, gjaldmiðill sem ekki þarf að okurvaxta og verðtryggja, gjaldmiðill sem gerir okkur kleift að fjárfesta í húsnæði á sambærilegum kjörum og bræður okkar og systur geta gert í nágrannaríkjum.

Á þessu stóra máli hefur þessi ríkisstjórn engan áhuga. Það eina sem frá henni hefur komið tengt þessu er boðað þingmál um bann við 40 ára verðtryggðum húsnæðislánum. Það er það sem menn kalla afnám verðtryggingar eftir kosningar. Eftir sitja hins vegar óverðtryggð lán á himinháum sveiflukenndum vöxtum og styttri verðtryggð lán með hærri afborgunum. Það er ekki verið að leysa neitt, bara fækka vondum kostum og takmarka þannig val fólks, þá sérstaklega þess efnaminna. Eins má segja að ánægja þessarar ríkisstjórnar með krónuna og verðtrygginguna hafi birst okkur í tillögunni um slit á aðildarviðræðunum við Evrópusambandið á síðasta þingi. Aðild að Evrópusambandinu er nefnilega raunhæfur valkostur fyrir okkur Íslendinga út úr verðtryggðri haftakrónu og kostnaði hennar fyrir íslensk heimili og fyrirtæki og inn í stöðugan gjaldmiðil þar sem menn greiða viðráðanlega vexti og sjá ekki skuldir sínar vaxa með hverri einustu afborgun.

Við samfylkingarfólk höfum boðið upp á valkost í þessu stærsta lífskjaramáli okkar samtíma og í því fólust viðræðurnar við Evrópusambandið sem þessi ríkisstjórn hefur nú stoppað — og það án þess að bjóða upp á annan valkost en bara það sama gamla. Við þurfum skýra framtíðarsýn frá stjórnvöldum. Fleiri og fleiri Íslendingar kalla eftir því eins og sjá má í auknum stuðningi þjóðarinnar við aðildarviðræðurnar. Á það kall þarf ríkisstjórnin að hlusta. Svo einfalt er það.

Kæru Íslendingar. Megið þið njóta haustsins og vetrarins. Ég óska ykkur góðra stunda.