144. löggjafarþing — 2. fundur,  10. sept. 2014.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[21:25]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ástkæru landsmenn. Síðastliðinn sólarhringur hefur verið sveipaður ákveðinni tilvistarkreppu þeirrar stjórnmálakonu sem hér stendur. Ég settist niður með opnum hug að lesa stefnuræðu forsætisráðherra, sem var í raun um útópíuna Ísland. Ég varð því miður litlu nær um stefnu ríkisstjórnarinnar í mikilvægum málum eða hvernig þetta leiðarstef forsætisráðherra eigi að greinast niður í aðgerðir ráðherra hans í ríkisstjórninni.

Ég er ekki ósammála ráðherranum um hvernig gaman væri að hafa Ísland, allt í lukkunnar velstandi. Lesturinn varð til ágætrar dægrastyttingar að því leytinu til. Tilvistarkreppan hefur snúið að því að nýta tímann betur. Mér finnst vont að við séum að spjalla saman hér í kvöld um eitthvað mjög óljóst, að forsætisráðherra sé að ræða fallegar draumsýnir í stað þess að takast á við það hvernig við komum okkur raunverulega inn í betri tíma.

Oft er sagt að við séum hér öll sammála um markmiðin en að okkur greini á um leiðirnar að þeim. En þegar öllu er á botninn hvolft er oft hrópandi misræmi í því hvernig stjórnmálamenn flokkanna virðast líta á heiminn. Í Bjartri framtíð höfum við lagt áherslu á víðsýni og fjölbreytni, að við á Íslandi séum hluti af stærri heild. Við höldum því fram að okkur muni farnast betur sem þjóð í góðri og náinni samvinnu við okkar nágranna- og vinaþjóðir og að við eigum ekki að óttast að búa í opnu, alþjóðlegu samfélagi.

Það var ein setning í ræðu hæstv. forsætisráðherra, þar sem hann lýsti sýn sinni á gjaldeyrishöftin, sem vakti athygli mína í þessu sambandi. Hæstv. forsætisráðherra sagði að fjármagnshöftin hefðu verið Íslendingum nauðsynlegt skjól til þess að þeir væru, með leyfi forseta, „varðir frá þeim ólgusjó sem hefur geisað í Evrópu og víðar“. Þessi afbökun á sannleikanum hræðir mig. Gjaldeyrishöft voru sett á Íslandi til þess að verja íslensku krónuna gegn sjálfri sér, ekki til þess að verja okkur gegn einhverjum ólgusjó annarra. Þau voru sett til þess að verja okkur gegn útflæði íslensku krónunnar.

Það er mikilvægt að hæstv. forsætisráðherra landsins geri sér grein fyrir því hvers vegna við erum raunverulega með fjármagnshöft. Það er ekki síst vegna þess að við erum með gjaldmiðil sem margir vilja ekki eiga og mundu vilja skipta út fyrir annan. Þetta er bara veruleikinn og við verðum að hafa kjark til þess að horfast í augu við hann. Það getur vel verið að forsætisráðherra og jafnvel fjármálaráðherra vilji alls ekki skipta um gjaldmiðil og séu mjög sáttir við krónuna, en höfum það alveg á hreinu að íslenska krónan, sem er ein minnsta sjálfstæða mynt í heimi, er ekki í höftum vegna óróleika í útlöndum.

Herra forseti. Hver er veruleikinn hjá okkur og hvað eru enn þá útópískar draumsýnir? Forsætisráðherra ræddi um jafnan aðgang að heilbrigðis- og félagslegu kerfi. Það eiga ekki allir jafnan aðgang að félagslegri aðstoð á Íslandi. Sumum er veitt aðstoð sem er fjarri því nægjanleg og öðrum aðstoð sem samræmist ekki grundvallarmannréttindum. Fatlað fólk hefur barist ötullega fyrir því að fá notendastýrða persónulega aðstoð staðfesta í lög sem einn valkost fyrir sig. Mikil vinna hefur farið fram bæði hér á vettvangi þingsins, í ráðuneytum og í mörgum sveitarfélögum landsins og samkvæmt gildandi lögum á að lögfesta notendastýrða persónulega aðstoð á þessu ári. Þingið hefur lítið frétt af þessu og við bíðum átekta eftir frumvarpi þessa efnis frá hæstv. félagsmálaráðherra.

Heilbrigðisþjónustan er risavaxið viðfangsefni sem við höfum öll skoðun á enda ein mikilvægasta þjónusta sem ríkið veitir. Í ár er kominn nýr tekjustofn upp á 20 milljarða sem rennur inn í ríkissjóð. Hann er ekki notaður til þess að efla heilbrigðisþjónustu, ekki til þess að efla menntun komandi kynslóða eða til þess að greiða niður skuldir. Það lýsir sannarlega forgangsröðun.

Landspítali verður tæplega reistur fyrir eigið fé ríkissjóðs, en það er alveg ljóst að ástandið þar, húsakynnin, er ekki viðunandi. Á hverju ári sem við gerum ekkert tapast ógrynni af peningum sem fara í óhagræðið af því að reka spítalann á 17 mismunandi stöðum í borginni og sinna viðhaldi á úr sér gengnum byggingum. Hversu lengi eiga skattgreiðendur að borga fyrir það að ríkið geri lítið sem ekki neitt?

Herra forseti. Góða þjóð. Við munum á yfirstandandi þingi ræða þessi og ógrynni annarra mála. Það er einlæg von mín að stjórnarliðar hræðist ekki umræðurnar og gagnrýni heldur sjái í þeim tækifæri til þess að laga og færa lögin sem við hér setjum til betri vegar, samfélagi okkar og framtíð til heilla.