144. löggjafarþing — 2. fundur,  10. sept. 2014.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[21:37]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Samfélagið er þeir sem byggja það, lifa í því og trúa á það. Viljinn til breytinga lá í hjarta þessa samfélags fyrir ári þegar gengið var til kosninga. Langlundargeð þjóðar eftir réttri forgangsröðun var búið. Breytinga var þörf og að taka á vandamálum sem lágu fólki næst. Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hafði unnið að því ötullega síðastliðið ár og nokkrum vikum betur. Það var þreytt þjóð árið 2013 sem fór í kjörklefann, þreytt á hruni, þreytt á bið, þreytt á rifrildi meðal stjórnarflokka, skorti á lausnum og hún var orðin óþolinmóð. Ríkisstjórnin átti erfitt verk fram undan en tók strax til við uppbygginguna. Það er þó ekki hægt að laga hlutina á einu ári eða einni nóttu. Unnið hefur verið mikið og vel á einu ári og er ég þess fullviss að lausnirnar eru góðar.

Góðir landsmenn. Það er viðurkennt að sú ákvörðun að taka ekki skuldir fallinna einkabanka var grunnurinn að því að við stöndum svo framarlega í dag. Mistökin voru þau að lán heimilanna sátu eftir, en nú erum við að leiðrétta það. Leiðréttingin er komin til framkvæmda eftir umsóknatímabil þar sem gríðarlegur áhugi var hjá þjóðinni þrátt fyrir úrtöluraddir og almenna neikvæðni stjórnarandstöðunnar. Leiðrétting á skuldum heimilanna er mun áhrifaríkari leið til þess að bæta hag þeirra en þær fálmkenndu aðferðir sem gripið var til á síðasta kjörtímabili. En saman sköpum við jákvæða hvata, aukið traust og trú á samfélag okkar, traust til þess að framkvæma það sem þarf til að tryggja framtíðaríbúum eyjunnar okkar velmegun og farsæld.

Sérstakir fjármunir hafa verið veittir í verkefni sem voru einna mest aðkallandi í heilbrigðis- og löggæslumálum og störfum hefur verið skilað til landsbyggðarinnar. Breytingarnar eru sjáanlegar, munu koma áfram í ljós á næstu mánuðum og árum. Þá gefa hallalaus fjárlög fyrirheit um betri tíma í framtíðinni.

Virðulegi forseti. Ég er stoltur af Íslendingum. Ég er stoltur af sjómönnunum. Ég er stoltur af bændunum sem yrkja landið. Ég er stoltur af listamönnum sem leggja heiminn að fótum sér, íslenska landsliðinu sem sigraði Tyrki 3:0, unga fólkinu sem erfa mun landið. Ég er stoltur af Íslandi. Ef það er þjóðrembingur í augum hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar og formanns Bjartrar framtíðar þá er ég illa haldinn af slíkum rembingi.

Eftir því er tekið um land allt að ferðaþjónustan blómstrar, sjávarútvegur og aðrar útflutningsgreinar vaxa, listir og menning auka hróður okkar og tekjur. Fjárfesting er að aukast og atvinnuleysi er lítið. Þessum árangri er ekki síst að þakka krónunni enda hefur evrukórinn lækkað raust sína.

Ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hefur einungis setið í rúmt ár en samt hefur henni tekist að efna sín stærstu markmið frá síðustu kosningum. Verkefnið heldur samt áfram næstu þrjú árin, að skapa samfélaginu, skapa fólkinu bjartsýni og örugga framtíð.

Eftirspurn er eftir menntaða fólkinu okkar, frumkvöðlunum sem framkvæma það sem þeim hugkvæmist. Eftirspurn eftir matvælum í heiminum eykst, sérstaklega hreinum og heilnæmum. Þar hefur Ísland forskot á aðra í náttúrulegum gæðum.

Við nýtum hugvit og tækniþekkingu landans. Nú eru íslensk fyrirtæki víða um veröld í verkefnum sem byggja á þekkingu, reynslu og hugkvæmni starfsmanna þeirra, hvort sem er í jarðhita, verktakastarfsemi eða öðru. Það er metnaður sem heldur okkur í fremstu röð. Þrátt fyrir úrtöluraddir um fámenni og smæð ná afrek okkar langt, lengra en tölfræðin segir að mögulegt sé.

Þeir eru þó til sem ekki hafa trú á sjálfsbjörg íslensku þjóðarinnar og telja framtíð hennar betur komna í fangi annarra. Raddir þessara úrtölumanna munu fljótlega þagna vegna dugnaðar og útsjónarsemi Íslendinga.

Nú þegar kastað hefur verið rekunum á umsóknina að Evrópusambandinu má líka velta fyrir sér hvort áherslumál stjórnarandstöðunnar verði eingöngu þau að fikta í klukkunni og krefjast viðskiptabanns á útflutningsfyrirtæki Íslands.

Virðulegi forseti. Átök og ófriður víða um veröld valda óvissu enda ófyrirséð hverjar afleiðingarnar verða. Blikur eru á lofti í samskiptum þjóða heimsins og sigla verður þann ólgusjó af varfærni og skynsemi en ekki hvika frá grundvallartrú á rétt þjóðar til sjálfsákvörðunar og sjálfsstjórnar. Fyrir sjálfstæða smáþjóð er mikilvægt að treysta á virkni alþjóðasamstarfs og samvinnu, vera framsýn og sýna dug. Íslendingar líkt og aðrar þjóðir þurfa á því að halda að friður, jafnrétti, jafnræði og velmegun séu viðvarandi og aukist í heiminum.

Góðir landsmenn. Það er full ástæða fyrir Íslendinga að vera bjartsýnir á eigin hag. Á Íslandi býr friðsöm, herlaus þjóð sem setur takmarkið hátt og nær góðum árangri. Þessa hugsun hefur ríkisstjórnin í hávegum í vinnu sinni. Nú þegar er dáðst að Íslandi víða um heim og að Ísland skuli fremst Evrópuþjóða snúa vörn í sókn eftir fjármálahrun heimsins. Við erum öfunduð af stórkostlegum auðlindum og að við stjórnum þeim sjálf með sjálfbærum hætti og við lútum ekki yfirboðum annarra við nýtingu þeirra. Tekið er eftir Íslandi. Það er tekið eftir því vegna þess að hér býr þetta duglega, vingjarnlega og frjóa fólk sem þrátt fyrir áföll heldur áfram og vinnur sig út úr vandanum af krafti og útsjónarsemi.

Virðulegi forseti. Við þurfum að vanda okkur í störfum okkar, læra af gullæðinu sem kom okkur á kné árið 2008. Við eigum að sýna hófsemi gagnvart þeim sem vilja heimsækja okkur, starfa hér eða vinna með okkur. Öfgar eru aldrei góðar, hvort sem það er öfgafrjálshyggja eða öfgavinstristefna. Best er því að búa í jafnvægi og því erum við að ná með ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins. Með skynsemi og rökhyggju, samvinnu, staðfestu og óbilandi trú á kraftinum sem býr í þjóðinni eru Íslendingum allir vegir færir. — Góðar stundir.