144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[10:36]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2015 sem er 1. mál þessa 144. þings. Ríkisfjármálastefnan fyrir árið 2015 endurspeglar að tekist hefur með markvissum aðgerðum að ná jafnvægi í ríkisfjármálunum. Verkefnið fram undan er síðan að tryggja áframhaldandi árangur í ríkisbúskapnum og skjóta þannig enn styrkari stoðum undir efnahagsbatann og batnandi lífskjör fólks í landinu.

Í frumvarpinu er lagt upp með að ná fram nokkrum lykilmarkmiðum. Þau eru: Stöðugleiki í efnahagsmálum, jafnvægi í ríkisfjármálum, áframhaldandi aðhald í rekstri, stöðvun skuldasöfnunar, lækkun skatta og hærri ráðstöfunartekjur fólks í landinu.

Um þessar mundir eru efnahagshorfur góðar og stöðugleiki hefur verið ríkjandi á yfirstandandi ári. Verðbólga er sögulega lág og hefur samfellt verið undir verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands meiri hluta ársins 2014. Þá fara lánskjör ríkisins batnandi, eins og skuldabréfaútgáfan frá því í sumar er til vitnis um. Atvinnustigið er á uppleið og nú gera allar spár ráð fyrir góðum hagvexti á næsta ári og árunum þar á eftir.

Við leggjum nú fram frumvarp til hallalausra fjárlaga annað skiptið í röð. Frumgjöld halda áfram að lækka sem hlutfall af landsframleiðslu ásamt því sem gripið er til áframhaldandi aðhaldsráðstafana á útgjaldahliðinni til að unnt verði að standa vörð um velferðar- og menntakerfið, ráðast í aðkallandi framkvæmdir og sinna viðhaldi innviða. Í því aðhaldi sem birtist í frumvarpinu felast aðgerðir sem eru nauðsynlegar svo við getum fengið raunverulega viðspyrnu til að sinna sameiginlegum verkefnum. Raunveruleg viðspyrna er ekki til staðar þegar byggt er á hallarekstri og lánasöfnun.

Í efnahagshorfum fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2015 er gert ráð fyrir jákvæðri afkomu ríkissjóðs næstu árin, með hóflegum afgangi 2015 og 2016, en 2017 og 2018 er reiknað með að hann aukist til muna, í um 30 milljarða kr. síðara árið. Þetta er þó nokkuð betri langtímaspá en við kynntum hér fyrir ári.

Eins og áður sagði hefur skuldasöfnun ríkissjóðs verið stöðvuð og þar með búið betur í haginn fyrir lækkun skatta á einstaklinga og fyrirtæki og um leið að vinna á skuldum ríkissjóðs. Árið 2014 fara skuldir ríkissjóðs undir 80% af landsframleiðslu. Þetta er markmið sem við kynntum við fjárlagagerðina í fyrra. Margir höfðu efasemdir um að það mundi nást en jafnvel þótt ríkið tæki á sig viðbótarskuldir frá Seðlabankanum á miðju þessu ári mun skuldahlutfallið fara undir 80% landsframleiðslu. Þetta er jákvæð þróun og á næstu árum er gert ráð fyrir að skuldahlutfallið batni enn frekar og verði 74% í lok næsta árs og fari undir 70% árið 2016. Fram undan er tímabil þar sem við getum hafið niðurgreiðslu skulda að raunvirði og verður það grundvallaratriði í langtímaáætlun ríkisfjármála næstu árin.

Markvisst er þannig stefnt að lækkun skulda og þar með vaxtagjalda, ekki síst í ljósi þess að gert er ráð fyrir að við munum þurfa að verja 12–13% af heildartekjum ríkissjóðs í vaxtakostnað næstu fjögur árin. Það eitt og sér dregur fram þörfina fyrir aðgerðir á þessu sviði. Tiltrú á stjórn ríkisfjármála er síðan auk þessa lykilatriði í þróun vaxtakjara ríkissjóðs. Eftir að Ísland fékk aftur aðgang að alþjóðlegum fjármálamörkuðum hafa kjör á lánum ríkissjóðs batnað umtalsvert, eins og sýndi sig í sumar þegar lán að andvirði 116 milljarðar kr. voru endurfjármögnuð.

Herra forseti. Með hliðsjón af því verkefni sem fram undan er á næstu árum, sem og ýmsum skuldbindingum ríkissjóðs til framtíðar litið, verður svigrúm fyrir ný verkefni og aukið umfang takmarkað. Að óbreyttu tæki mörg ár og raunar áratugi að greiða niður þær skuldir sem ríkissjóður stendur frammi fyrir og á sama tíma kæmi vaxtabyrðin í veg fyrir framlög til mikilvægra málaflokka.

Því er nauðsynlegt að hefja tiltekt á efnahagsreikningi ríkissjóðs með eignasölu og lækkun á skuldum. Áframhaldandi heimild verður veitt til sölu á eignarhlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Stefnt er að sölu á um 30% eignarhlut í Landsbankanum á næstum tveimur árum og verður andvirðið nýtt til að greiða niður höfuðstól af skuldabréfalánum sem tekin voru til að endurfjármagna fjármálastofnanir í kjölfar bankahrunsins. Að sjálfsögðu mun í þessu samhengi þurfa að tryggja að allar ytri aðstæður séu hagfelldar og að skynsamlegt sé, eins og aðstæður verða metnar á næstu tveimur árum, að finna nýja eigendur að þessum bréfum með hliðsjón af til dæmis kaupverðinu sem stendur ríkinu til boða. Þetta er tækifæri sem er okkur nærtækt og þessi heimild hefur staðið í fjárlögum undanfarinna ára. Heimildin hefur staðið til þess að losa um eignarhald ríkisins á hluta eigna í fjármálafyrirtækjum og með þessu móti er unnt að lækka vaxtabyrði ríkissjóðs. Við eigum á komandi árum að huga að enn frekari eignasölu og lækkun skulda og þar horfi ég ekki síst til þess að losa um eignarhald í öðrum fyrirtækjum en Landsbankanum á fjármálamarkaði.

Við eigum á sama tíma að líta til þess næstu árin hvort viðeigandi skref til afnáms gjaldeyrishafta geti opnað möguleika til að draga úr stærð gjaldeyrisvaraforðans og greiða niður samsvarandi skuldir á móti. Það væri vissulega mikið fagnaðarefni en öllum er ljóst að það er verulega íþyngjandi fyrir ríkið að halda uppi jafn stórum gjaldeyrisvaraforða og við höfum gert undanfarin ár. Hvert tækifæri til að draga úr lántöku vegna þess mikla forða á að grípa til þess að lækka vaxtabyrðina enn frekar.

Herra forseti. Skattar á einstaklinga og fyrirtæki voru lækkaðir samhliða fjárlögum ársins 2014. Miðþrep tekjuskatts einstaklinga var lækkað og nær sú aðgerð til mikils meiri hluta greiðenda. Tryggingagjaldið var sömuleiðis lækkað og áframhaldandi lækkunarferill þess lögfestur. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar birtist skýr sýn á hlutverk skattkerfisins á komandi árum. Mikilvægt er að einstaklingar njóti beinna kjarabóta af léttari skattbyrði. Ekki er síður mikilvægt að skattkerfið styðji við atvinnulífið og hindri ekki frumkvæði og framtak, vöxt og viðgang fyrirtækja, fjárfestingu og ný störf.

Með þessi markmið í huga hyggst ríkisstjórnin vinna áfram að lækkun skatta og einfalda skattkerfið með því að taka til endurskoðunar virðisaukaskattskerfið og vörugjöld. Lagðar eru til breytingar á hlutföllum virðisaukaskatts og fækkun undanþága. Þá er lagt til að almenn vörugjöld verði afnumin. Í því felst mikil einföldun. Það vegur þungt til mótvægis við hugsanleg áhrif af breytingum á virðisaukaskattskerfinu og hefur jákvæð áhrif á verðlag og kaupmátt. Auk þessara aðgerða verða barnabætur hækkaðar umtalsvert.

Ég mun koma nánar að þessum breytingum síðar í framsögu minni en vek athygli á því að með þessum aðgerðum er gert ráð fyrir að ráðstöfunartekjur heimilanna hækki um 0,5% og að áhrif á verðlag í landinu verði til 0,2% lækkunar. Verðlag mun lækka. Í þessu sambandi er jafnframt á það bent að aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna skuldavanda heimilanna, sem koma til framkvæmda haustið 2014, á næstu vikum, munu einnig auka ráðstöfunartekjur heimilanna næstu árin um annað eins. Það er áætlað að á næsta ári muni ráðstöfunartekjur heimilanna vegna þeirra aðgerða vaxa um 5 milljarða og það er til framtíðar.

Herra forseti. Útlit er fyrir stöðugan bata í afkomu ríkissjóðs á komandi árum þar sem auk þess fari saman lækkandi hlutfall frumtekna og frumgjalda af landsframleiðslu. Þá er vert að geta þess að í fjárlögum 2014 var gert ráð fyrir lítils háttar afgangi á heildarjöfnuði í fyrsta skiptið í sex ár en í endurskoðaðri áætlun fyrir þetta ár er nú útlit fyrir mun betri afkomu, allt að 38 milljarða kr. afgang í stað 0,9 milljarða kr. afgangs í fjárlögum.

Meginskýringin á þessari bættu afkomu á yfirstandandi ári snýr að óreglulegum og einskiptistekjum sem nú er gert ráð fyrir að falli til á árinu.

Annars vegar er um að ræða sérstakar arðgreiðslur af eignarhlutum ríkissjóðs í viðskiptabönkunum og frá Seðlabankanum, alls um 19,5 milljarða kr., og hins vegar 26 milljarða kr. tekjufærslu vegna lækkunar á skuldabréfi sem ríkissjóður gaf út til að styrkja eiginfjárstöðu Seðlabankans í kjölfar falls bankakerfisins haustið 2008. Gert er ráð fyrir að arðgreiðslan frá Seðlabankanum verði nýtt til að greiða niður höfuðstól af sama skuldabréfi og þannig lækka skuldir ríkissjóðs um 26 milljarða kr.

Heildarútgjöld ríkissjóðs á árinu 2015 eru áætluð 640,5 milljarðar kr. og hækka um 9,5 milljarða kr. frá áætlun 2014, frá áætluðum útgjöldum yfirstandandi árs. Þetta er nokkuð meiri hækkun en áætluð var samkvæmt fjárlögum, 9,5 milljarðar kr. miðað við áætlaða útkomu á þessu ári. Frumgjöld eru áætluð 556,3 milljarðar kr. í frumvarpinu og hækka um 3,8 milljarða kr. frá áætlun 2014 miðað við verðlag hvors árs. Að frátöldum launa-, gengis- og verðlagshækkunum árið 2015 lækka frumútgjöldin um 11,5 milljarða kr. frá áætlun 2014 en heildargjöldin lækka um 5,8 milljarða kr. Þetta sýnir að launa-, gengis- og verðlagshækkanir eru umtalsverður hluti, og verulegur af breytingunum.

Frumgjöld ríkissjóðs hafa lækkað með aðhaldsráðstöfunum undangenginna ára og í áætluninni fyrir næstu fjögur ár er gert ráð fyrir að áfram verði aðhald með útgjaldahliðinni. Hlutfall frumgjalda af vergri landsframleiðslu mun því að óbreyttu lækka nokkuð þar sem gert er ráð fyrir þróttmiklum hagvexti yfir tímabilið. Þegar óreglulegir liðir eru frátaldir er hlutfallið áætlað um 25% árið 2015 og verður það þá orðið áþekkt því sem það var árið 2006.

Ég hef tekið eftir umræðu um það að með þessari þróun telji menn að hér sé hafin einhvers konar ný nýfrjálshyggjutilraun … (ÖS: Dólgafrjálshyggja.) Já, jafnvel nefnd dólgafrjálshyggja, en dæmin sem nefnd eru þessu til stuðnings standast ekki skoðun þegar nánar er að gáð. Samkvæmt þessari kenningu mundu í sjálfu sér sérhver aukin útgjöld ríkissjóðs bæta þetta hlutfall í átt til þess að færa okkur nær hinu norræna velferðarsamfélagi alveg óháð því í hvað útgjöldin færu. Það mætti stofna her á Íslandi eða stofna bara til hvers kyns útgjalda, allt til þess að komast í þessi réttu hlutföll. Þetta er ekki rétt nálgun á viðfangsefnið. Staðreynd málsins er sú að ef við gætum ekki áfram aðhalds í útgjöldum ríkisins verður enginn afgangur af ríkisfjármálunum næstu árin. Þá mun skuldasöfnunin hefjast að nýju, skuldahlutföllin fara versnandi og vaxtabyrðin áfram vera íþyngjandi eins og verið hefur. Það er grundvallaratriði fyrir ríkisfjármálin að áfram verði beitt aðhaldi. Mælikvarðinn á það hvort við teljumst vera áfram að byggja hér upp norrænt velferðarsamfélag, eða bara yfir höfuð íslenskt velferðarsamfélag eins og við viljum best sjá það, er sá hvernig fólkið í landinu hefur það. Sem betur fer vaxa ráðstöfunartekjurnar núna ár frá ári og það eru allar forsendur til þess að tryggja áframhaldandi batnandi lífskjör á næstu árum þrátt fyrir að skuldahlutföllin séu að þróast með jákvæðum hætti og að frumgjöld sem hlutfall af landsframleiðslu séu á réttri leið.

Það vekur auk þess athygli að heyra þessa umræðu koma úr röðum vinstri flokkanna sem hér stýrðu för á síðasta kjörtímabili vegna þess að þegar þeirra eigin áætlanir til næstu ára eru skoðaðar kemur í ljós að það er í raun og veru enginn munur, það er bara nákvæmlega sama myndin sem við blasir. Fyrri ríkisstjórn stefndi einmitt að því að frumgjöld mundu lækka með sama hætti sem hlutfall af landsframleiðslunni og núverandi ríkisstjórn gerir ráð fyrir. Mér sýnist að það muni 0,3% þegar þessar tvær langtímaáætlanir eru bornar saman.

Eini munurinn er kannski sá að góður ásetningur fyrri ríkisstjórnar um árangur í ríkisfjármálum var einmitt bara það, þetta var kannski bara góður ásetningur.

Herra forseti. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir styrkingu innviða með ýmsum hætti og að forgangsraðað sé í þágu grunnþjónustunnar. Þannig má nefna ýmis ný og aukin framlög til heilbrigðismála sem nema 1,8 milljörðum kr. Þar falla til dæmis undir aukin útgjöld vegna barnatannlækninga, efling heimahjúkrunar, verkefnið Betri heilbrigðisþjónusta, styrking á rekstrargrunni Landspítalans, Sjúkrahússins á Akureyri og heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu, en samtals eru veittar rúmar 200 millj. kr. til styrkingar á þessum stofnunum í fjárlagafrumvarpi ársins 2015, til viðbótar við 3,6 milljarða kr. framlög sem sjúkrahúsin fengu í fjárlögum yfirstandandi árs. Þau halda sér öll í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2015.

Í því samhengi er athygli vakin á því að tækjakaup til Landspítala aukast annað árið í röð. Í fyrra var sett saman ný tækjakaupaáætlun. Fjárveitingin nemur 1,4 milljörðum kr. í ár til viðbótar við 1,2 milljarða kr. í fyrra. Þetta er veruleg aukning frá því sem áður var og sýnir vel forgangsröðun ríkisstjórnarinnar.

Annað atriði sem nefna má er að gert er ráð fyrir rúmlega 600 millj. kr. raunaukningu á framlagi til heilsugæslu og sjúkraflutninga. Aukið fé til heilsugæslu felur meðal annars í sér verkefni eins og fjölgun á sérnámsstöðum í heimilislækningum og heilsugæsluhjúkrun.

Þá er þess að geta að fjárlög þessa árs báru með sér 200 millj. kr. í tímabundið framlag til að bregðast við brýnum vanda vegna skorts á hjúkrunarrýmum á landsbyggðinni. Í fjárlagafrumvarpi ársins 2015 er lagt til að þetta tímabundna framlag verði framlengt, það verði gert varanlegt. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli fyrir lítil og meðalstór hjúkrunarheimili á landsbyggðinni.

Árið 2015 hækka framlög til elli- og örorkulífeyrisþega og félagslegrar aðstoðar um 2,4 milljarða kr., að undanskilinni verðlagshækkun sem nemur 3 milljörðum kr. Samtals eru þetta 5,4 milljarðar kr. sem koma til viðbótar hækkun á yfirstandandi fjárlagaári um alls 8,4 milljarða kr. Með þessum aðgerðum er sannarlega verið að bæta lífskjör öryrkja og þeirra sem eldri eru, og þær skerðingar sem þessir hópar urðu fyrir árið 2009 hafa nú verið afturkallaðar eins og gefin voru fyrirheit um fyrir kosningar. (SII: Þetta er rangt.)

Þá eru veittar 463 millj. kr. með það að markmiði að styrkja rekstrargrunn háskólakerfisins með breytingum á reikniflokkum háskólanna, auk 400 millj. kr. til að treysta rekstrargrundvöll framhaldsskólanna og 850 millj. kr. í aukin framlög til samgönguverkefna.

Þess ber einnig að geta að í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um að skapa umhverfi sem hvetur til nýsköpunar í fyrirtækjum er í þessu fjárlagafrumvarpi unnið eftir aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs um aukna fjárfestingu í samkeppnissjóðum. Stórauka á fjárveitingar til vísinda og nýsköpunar þannig að árið 2016 nái þær 3% af vergri landsframleiðslu og verði sambærilegar því besta sem þekkist innan OECD. Aðgerðunum er sömuleiðis ætlað að laða fram aukna fjárfestingu fyrirtækja í vísindum og nýsköpun. Á næsta ári eykst framlag ríkisins um 800 millj. kr. og 2 milljarða kr. árið 2016. Það er von okkar og ósk og trú að atvinnulífið taki við sér samhliða þessum auknu framlögum og auki sinn hlut til nýsköpunar þannig að þessum metnaðarfullu markmiðum verði náð.

Herra forseti. Heildartekjur ríkissjóðs eru áætlaðar 644,5 milljarðar kr. og lækka um 24,6 milljarða kr. frá áætlun þessa árs. Frumtekjur eru áætlaðar 626,3 milljarðar kr. í frumvarpinu og lækka um 24,7 milljarða kr. frá áætlun þessa árs. Lækkun tekna frá áætlun yfirstandandi árs skýrist að miklu leyti af einskiptistekjufærslu upp á 26 milljarða kr. frá Seðlabanka Íslands á árinu 2014 og sérstökum arðgreiðslum af eignarhlutum ríkissjóðs í viðskiptabönkunum og frá Seðlabankanum sem ekki er varlegt að gera ráð fyrir að endurtaki sig á næsta ári.

Sem hlutfall af landsframleiðslu fara heildartekjur úr 33,6% í 31,6% milli áranna 2014 og 2015 þegar leiðrétt hefur verið fyrir óreglulegum liðum. Ástæðu þess má fyrst og fremst rekja til óvenjumikilla tekna af arði á árinu 2014 og að sjálfsögðu aukningar á nafnvexti landsframleiðslunnar á næsta ári.

Margvíslegar skattbreytingar setja svip sinn á áætlanir um skatttekjur næsta árs, m.a. í þá átt að einfalda skattkerfið, gera það skilvirkara og draga úr skattbyrði. Í því sambandi er rétt að vekja athygli á því að endanleg útfærsla þeirra tillagna, um breytingar á virðisaukaskatti og afnám vörugjalda eins og þær birtast í þeim tekjufrumvörpum sem lögð hafa verið fram á þingi, varð nokkuð önnur en fram kemur og kynnt er í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2015. Ástæðan er einkum sú að í fyrsta skipti eru frumvarp til fjárlaga og lögboðin tekjufrumvörp lögð samtímis fram á Alþingi í september. Áður en endanlegar tillögur að breytingum á skattalöggjöfinni lágu fyrir var tímans vegna þegar lokið við gerð forsendna tekjuáætlunarinnar í fjárlagafrumvarpinu. Af þeim sökum er því gert er ráð fyrir því að við 2. umr. fjárlagafrumvarpsins á Alþingi verði fluttar viðeigandi breytingartillögur til að mæta þessu misræmi.

Þessar breytingar á forsendum fjárlagafrumvarpsins eru þær að í fyrsta lagi verður engin verðlagsuppfærsla á krónutölugjöldum og sköttum fyrir árið 2015 eins og gert hafði verið ráð fyrir í undirbúningi fjárlagavinnunnar. Í öðru lagi er nú gert ráð fyrir að breytingar á virðisaukaskatti komi allar til framkvæmda í einum áfanga 2015 í stað tveggja og nokkrar breytingar hafa orðið á hækkun neðra þrepsins sem verður minni og lækkun efra þrepsins vinnur þar á móti, en áfram hið sama og menn höfðu séð fyrir.

Hér má einnig nefna í þriðja lagi að vörugjöld verða afnumin í einu lagi og í fjórða lagi er lagt til að mótvægisaðgerðir birtist fyrst og fremst í barnabótakerfinu en ekki í tekjuöflunarkerfinu sem kom til álita að gera, en horfið var frá því.

Almennur fyrirvari stendur í fjárlagafrumvarpinu um að til breytinga af þessum toga gæti komið.

Herra forseti. Þegar þær aðgerðir sem kynntar voru síðasta haust komu fram fólu þær í sér alls 6,9 milljarða kr. tekjuauka. Um var að ræða hækkun bankaskatts en lækkun á tekjuskatti einstaklinga, fjármagnstekjuskatti, fjársýsluskatti, virðisaukaskatti og tryggingagjaldi, auk kerfisbreytingar á stimpilgjaldi sem var hlutlaus gagnvart tekjuáætlun. Öll urðu þessi áform að lögum, með breytingum þó, þannig að tekjuáhrif aðgerðanna í endanlegri útfærslu jukust úr 6,9 milljörðum kr. í 30,7 milljarða kr. með hækkun á bankaskattinum.

Í mjög einfaldri mynd voru það slitabúin sem fengu á sig skatt, undanþágur voru afnumdar fyrir slitabúin, fjármálafyrirtækin fengu á sig aðeins hærri skatt en allur almenningur og fyrirtæki fengu afléttingu skatta. Ljóst er að skattkerfisbreytingar munu áfram leiða til minni byrði fyrir almenning og fyrirtæki á næstu árum.

Ég ætla að rekja hér nokkrar breytingar sem eru að taka gildi:

Auðlegðarskattur féll úr gildi í árslok 2013. Hann var lagður á í síðasta sinn á þessu ári vegna fyrra árs. Hann verður ekki innheimtur á næsta ári.

Ákvæði um skatt á raforku falla úr gildi í ársbyrjun 2016.

Tryggingagjald mun lækka úr 7,59% í 7,49% árið 2015 og í 7,35% árið 2016.

Útvarpsgjald mun lækka í tveimur skrefum með 250 millj. kr. tekjulækkun hvort ár 2015 og 2016, þ.e. samtals um 15%. Þetta er 15% lækkun á því gjaldi sem einstaklingar og lögaðilar greiða í útvarpsgjald. Þetta er bein skattalækkun.

Hækkað frítekjumark vaxtatekna hefur áhrif frá og með árinu 2015.

Aðgerðir til lækkunar skulda heimila sem lögfestar voru í maí 2014 leiða til lækkunar tekjuskatta og hafa vaxandi áhrif á næstu tveimur árum með því að fleiri nýta sér möguleikann til að fá skattafslátt vegna séreignarsparnaðar. Samhliða aukast þó ráðstöfunartekjur heimila og þar með einkaneysla í einhverjum mæli sem eykur tekjur ríkissjóðs af veltusköttum. Það er bein afleiðing af því að verðtryggðar skuldir lækka.

Lækkun veiðigjalds kemur fyrst fram að fullu á fjárlagaárinu 2015 og sama gildir um 1% gjaldskrárlækkanir sem einnig voru lögfestar á síðasta vorþingi til breytingar og í samræmi við samkomulag sem gert var, yfirlýsingu sem gefin var út vegna kjarasamninga.

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur sett hag heimilanna í forgrunn. Þetta má sjá af öllum þessum markvissu aðgerðum til að auka ráðstöfunartekjur þeirra. Samanlögð áhrif skattalækkana á árunum 2014 og 2015, ásamt hækkun bóta og lækkun húsnæðisskulda, skila aftur út til fólksins í landinu um 40 milljörðum kr. í hærri ráðstöfunartekjur þegar borið er saman við árið 2013. Kannski felst í þessu mesta stefnubreytingin með nýrri ríkisstjórn. Eins og talað er af þeim sem studdu fyrri stjórn er augljóst að þessir fjármunir hefðu allir verið veittir til ríkisins, til verkefna sem ríkið hefði staðið að baki. Okkar trú er sú að fjármununum sé betur varið með þessum hætti og það sé skynsamlegra að létta undir þeirri miklu byrði sem heimilin og fyrirtækin í landinu hafa þurft að fást við á undanförnum árum, ekki síst vegna skattkerfisbreytinga og skattahækkana sem boðaðar hafa verið og innleiddar. Þessir 40 milljarðar kr. samsvara um 5% aukningu frá ráðstöfunartekjunum eins og þær voru þegar vinstri stjórnin fór frá.

Herra forseti. Breytingar á virðisaukaskattskerfinu byggja á þeirri sýn að neysluskattarnir séu ekki ákjósanleg leið til að ná fram tekjujöfnuði í samfélaginu, að það séu fleiri leiðir til sem við eigum að skoða og beita til að ná fram því markmiði. Við munum ræða sérstaklega um breytingar á virðisaukaskattskerfinu þegar ég mæli fyrir því máli. Þar er meginatriði málsins það að heildaráhrif breytinganna eru til þess að auka kaupmátt í landinu til að hafa jákvæð áhrif á verðlag. Mótvægisaðgerðir sem kynntar eru eru sérstaklega hugsaðar til að koma til móts við möguleg neikvæð áhrif af hækkun neðra þrepsins. Ég lít þannig á að hér í þinginu sé það meginverkefnið að fara nákvæmlega yfir þessi áhrif fyrir ólíka tekjuhópa. Það verður ekki sagt um stjórnarflokkana í þeirri umræðu að þeir séu ekki tilbúnir að taka málefnanlega og af yfirvegun hvert slíkt dæmi til skoðunar með það að markmiði að stefna stjórnarinnar nái fram að ganga sem er sú að bæta lífskjörin, auka ráðstöfunartekjurnar og létta byrðum af fólki.

Þess vegna verðum við reiðubúin að skoða sérhvert dæmi sem mætti verða til þess fallið að ná þessum markmiðum betur. Ég er þá sérstaklega að vísa til bótakerfanna.

Frá sjónarhóli tekjuöflunar hefur virðisaukaskattskerfið verið að gefa eftir, þ.e. skilvirkni kerfisins hefur verið ófullnægjandi. Við teljum einfaldlega nauðsynlegt að grípa til aðgerða vegna þessa til framtíðar litið vegna þess að virðisaukaskattskerfið, sem skilar ríkinu áætlað um 180 milljörðum kr. á næsta ári, er helsta og mikilvægasta tekjuöflunarkerfi okkar Íslendinga.

Það er ábyrgðarhlutur að gera ekkert í því þegar það virðist vera að gefa eftir.

Ég ætla ekki að verja miklum tíma í að ræða um almennu vörugjöldin, ég ætla ekki að segja annað en það að það er neyslustýring sem í mínum huga er tímabært að afnema.

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi sem styðja mun við áframhaldandi stöðugleika, frumvarpi sem felur í sér áframhaldandi aðhald. Það er nauðsynlegt, ekki síst í ljósi hárrar skuldastöðu ríkisins. Þetta frumvarp felur samt sem áður í sér möguleika til að létta skuldahlutföllin og leggur grunn (Forseti hringir.) að breytingum sem mikilvægar eru fyrir batnandi lífskjör og ryður brautina fyrir enn frekari breytingar á skattkerfum sem munu þá fela í sér beinar skattalækkanir, (Forseti hringir.) t.d. í tekjuskattsmálum.

Virðulegi forseti. Ég mælist til þess að málið gangi til fjárlaganefndar (Forseti hringir.) að lokinni þessari umræðu.