144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[11:11]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Hér er mörgum þingmönnum tíðrætt um ívilnanir og fyrirgreiðslu fyrir þá sem eru efnameiri. Stærsta einstaka aðgerð fyrri ríkisstjórnar í þeim efnum var að sleppa slitabúunum við bankaskattinn. Við drógum þá breytingu til baka. Það er líklega stærsta aðgerðin í skattamálum sem við höfum innleitt og skilar ríkinu meira en 20 milljörðum í tekjur, með því að láta slitabúin ekki vera undanþegin bankaskattinum. Það skilar því í tekjur ár eftir ár.

Að öðru leyti hafa okkar aðgerðir létt undir með öllum tekjuhópum. Breytingarnar á tekjusköttum frá því í fyrra léttu undir með öllum tekjuhópum, það var enginn undanskilinn. En við verðum auðvitað að taka með í þessa umræðu að ríkið er ekki að leggja tekjuskatt á alla. Það eru margir sem eru undanþegnir og ekki síst hóparnir sem hv. þingmaður og aðrir flokksmenn hans vilja helst tala um hér. Það er auðvitað erfitt að gefa eftir skatta sem (Forseti hringir.) ekki eru teknir, það er erfitt. Heildaráhrif þeirra breytinga sem fylgja þessu frumvarpi eru til góða, lækka verðlag, (Forseti hringir.) ekki hækka eins og tillögur fyrri ríkisstjórnar.