144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[11:12]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. fjármálaráðherra gerði að umtalsefni í framsögu sinni þá gagnrýni sem höfð hefur verið uppi, meðal annars af minni hálfu, að stefnt sé að sílækkandi hlutfalli samneyslunnar af vergri þjóðarframleiðslu og taldi að þetta væri hugsanlega ekki rétta leiðin til að meta velferðarþjónustu í samfélaginu.

Ég vil benda hæstv. ráðherra á að það kemur raunar fram í fjárlagafrumvarpinu sjálfu að það útgjaldahlutfall sem stefnt er að sé lágt í sögulegu samhengi og verði varla lækkað frekar nema með endurskoðun á þjónustuhlutverki ríkisins og helstu bótakerfum. Auðvitað höfum við því áhyggjur af því að hér sé stefnt að enn frekari niðurskurði í velferðarþjónustu.

Af því að hæstv. fjármálaráðherra nefndi að mælikvarðinn væri kannski sá að meta hvernig fólki liði þá er í þessu frumvarpi stefnt að aukinni greiðsluþátttöku með því að fella S-merkt lyf undir greiðsluþátttökukerfi lyfja. Við þingmenn heyrum margar frásagnir af því hvernig læknis- og lyfjakostnaður er að leggjast á fólk. Við höfum séð tölur (Forseti hringir.) og það bera auðvitað fleiri flokkar ábyrgð, ég er ekki að gera hæstv. fjármálaráðherra einan ábyrgan fyrir því, en greiðsluþátttaka sjúklinga hefur vaxið. (Forseti hringir.) Ég spyr hæstv. ráðherra: Viljum við ekki að hún fari niður á við fremur en upp á við?