144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[11:16]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla auðvitað ekki að taka þátt í umræðu sem á að snúast um að ég vilji ekki létta undir með þeim sem greinast með krabbamein eða þurfa á dýrum lyfjum að halda. Þetta er einhver misskilningur. Það er ekki verið að tala um að menn eigi að fara að borga fyrir S-merkt lyf inni á sjúkrahúsum. Það er ekki verið að ræða það hér. Það er hluti af annarri umræðu sem verður ekki afgreidd í þessu andsvari.

Meginatriðið er að á þeim bráðum tveimur árum sem við höfum starfað í nýrri ríkisstjórn hafa áherslur okkar gengið út á að létta aftur undir með heimilum og fyrirtækjum í þessu landi, skilað til baka því sem er til skiptanna eftir stanslausar skattahækkanir og gjaldahækkanir sem leiddar voru yfir fyrirtækin og heimilin. Þetta kalla vinstri flokkarnir að ráðast að tekjustofnum ríkisins. Við köllum þetta og í okkar huga þýðir það að létta undir með fólki, að létta byrðum af heimilunum. Þetta er hugmyndafræðilegur ágreiningur. Við trúum ekki á að það eigi (Forseti hringir.) að miðla öllum verkefnum í gegnum ríkið og við eigum að halda skattlagningu og gjöldum í lágmarki. Þetta endurspeglar aðeins ólíka nálgun.