144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[11:22]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Forseti. Það er ekki lagt til að fleiri undanþágur verði afnumdar að svo komnu máli og það stendur ekki fyrir dyrum að fækka undanþágum. En ég er alveg opinn fyrir hugmyndum ef þær skyldu koma fram hér í þinginu til þess að ræða og leggja þar með grunn að frekari lækkun þrepsins.

Ég er ekki sammála hv. þingmanni varðandi það að þvottavél sé ekki orðin nútímanauðsynjavara eða að almenningur kaupi ekki eldsneyti. Eru föt nauðsynjavara? Allir kaupa föt. Við göngum í fötum og flestir gera það svona dagsdaglega. Þau lækka í verði. Eins og ég segi er allur meginþorri neyslunnar í efra þrepinu, rétt í kringum 85–90% er í efra þrepinu og við erum að lækka það um 1,5 prósentustig. Vissulega eru viðkvæmir vöruflokkar í neðra þrepinu, vissulega, en við verðum að horfa á kerfisbreytinguna í heild sinni. (Forseti hringir.)

Varðandi lestur og lestrarkunnáttu held ég að sú umræða ætti að vera á dálítið breiðari grundvelli en að snúast bara um virðisaukaskattsprósentuna. (Forseti hringir.) Ég held að hún hafi með margt fleira að gera, kennslu í skólum og annað þess háttar.