144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[11:24]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit eiginlega ekki hvar ég á að byrja eftir þessa ræðu. [Hlátur í þingsal.] Ef ég skildi það rétt þá væri sem sagt fínt að lækka virðisaukaskatt á matvæli niður í núll og jafnvel þótt það þýddi að við þyrftum að lifa án húsnæðis og ganga um allsber o.s.frv. (Gripið fram í: Hver myndi ekki vilja það?) Það má vel vera að það sé einhver sérstök sýn Pírata að það geti orðið betra en núverandi fyrirkomulag, en ég bendi hv. þingmanni á það að þó ég geti í meginatriðum verið sammála því að við eigum að leggja mikið á okkur til þess að halda ákveðnum neysluflokkum lágum í verði þá er málið ekki alveg svo einfalt.

Ef við tækjum til dæmis matvöru niður í núll-þrep þá værum við ekki bara að taka það allra nauðsynlegasta niður í það þrep, við værum líka að taka allra dýrustu lúxusvöruna niður í núll-þrep og þá keyptu menn sér líka humar og kavíar og alla (Forseti hringir.) dýra matvöru í því þrepi með þeim rökum að það sé nauðsynleg vara (Forseti hringir.) sem engin rök séu fyrir því að skattleggja. Ég held að sú röksemdafærsla gangi seint upp.