144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[11:27]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst varðandi skattana. Ég trúi á lága skatta og ég tel að það birtist vel í áherslum þessarar ríkisstjórnar að við leggjum okkur fram um að halda sköttum og öðrum álögum í lágmarki. Ég hef hér rakið það fyrr í dag að það munar um 40 milljörðum uppsafnað fyrir 2014 og 2015 um hvað núverandi ríkisstjórn vill skilja eftir frekar hjá heimilunum og hjá atvinnustarfseminni í landinu en fyrri ríkisstjórn. Þetta er borið saman við árið 2013. Það eru umtalsverðar fjárhæðir.

Hvernig komum við til móts við þá sem bágast hafa kjörin? Við getum gert það með margvíslegum hætti og við gerum það í dag. Við gerum það í gegnum skattleysismörk. Við gerum það líka með því að tryggja hátt atvinnustig. Við gerum það með því að vera með öflug bótakerfi. Við gerum það með því að tryggja gjaldfrjálsan aðgang að skólum og heilbrigðisþjónustu sem stendur öllum til boða. Við gerum það með margvíslegum hætti og við gerum það reyndar svo vel (Forseti hringir.) að við mælumst meðal þeirra þjóða sem gera það best í heiminum.