144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[11:44]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður talaði um að almenningur hefði fært miklar fórnir á undanförnum árum. Vissulega má taka undir það. Það hafa allir þurft að færa fórnir til þess að mæta breyttum og erfiðari aðstæðum. Það var hins vegar rangt hjá hv. þingmanni að almenningur hefði lagt á sig skattahækkanir. Það var nefnilega vinstri stjórnin sem gerði það, það var vinstri stjórnin sem lagði skattana á almenning, á laun langt undir meðaltekjum. Það voru lág laun sem fengu á sig hærri tekjuskatta og skatta eins og auðlegðarskattinn sem gjarnan er nefndur til sögunnar í þessari umræðu. Skattur á hina ríku, segja vinstri flokkarnir.

Skoðum það aðeins. Einn þriðji fjöldans sem borgar auðlegðarskattinn er yfir 65 ára að aldri. 2 milljarðar koma frá eldri borgurum. 400 milljónir eru greiddar í auðlegðarskatt af fólki sem er með 80 þús. kr. og minna á mánuði. Eru þetta breiðu bökin í samfélaginu?

Tveir þriðju eldri borgara sem fengu auðlegðarskattinn á sig voru með undir 5 milljónum í árslaun. Og fjöldinn allur hefur ekki getað greitt þennan skatt. Þið sögðuð sjálf að hann ætti að vera tímabundinn. Hann var kynntur til sögunnar sem skattur sem beðið var um að fólk legði á sig í nokkur ár til þess að létta undir með erfiðri stöðu ríkissjóðs. Nú þegar það skeið er runnið, eins og menn tala hér sjálfir, er talað fyrir framlengingu skattsins. Það á að halda áfram að taka mörg hundruð milljónir af fólki með undir 5 milljónir í árslaun. Þetta er alveg óskiljanlegur málflutningur.

Eru þvottavélar og þurrkarar, ísskápar og varahlutir í bíla ekki (Forseti hringir.) hlutir sem allur almenningur kaupir? Skiptir afnám vörugjaldanna engu máli í huga hv. þingmanns? Og kannast hann ekki við að allur meginþorri varnings er í efra (Forseti hringir.) þrepinu sem er núna að lækka en vinstri flokkarnir höfðu hækkað?