144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[11:46]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Aldrei hækkuðu vinstri flokkarnir neysluskatta jafn mikið og hæstv. fjármálaráðherra leggur til núna. Hann getur sannarlega sagt „You ain't seen nothing yet“ með 11 milljarða hækkun á lífsnauðsynjar.

Skiptir lækkun á efra þrepinu engu máli? Jú, auðvitað gerir hún það að einhverjum hluta til, en hæstv. fjármálaráðherra veit að það er ástæða til að hafa efasemdir um að hún muni skila sér í vöruverðinu, a.m.k. að fullu. Það er rétt hjá hæstv. forsætisráðherra og ég veit að hæstv. fjármálaráðherra mótmælir honum ekki þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segir það löngu sannað að hækkun skatta á matvæli bitni verst á hinum lægst launuðu.

Það sem ég segi hér er einfaldlega að þær byrðar sem almenningur bar til að koma okkur út úr kreppunni eigi að vera í forgangi nú þegar svigrúmið er að skapast en ekki auðlegðarskattur ríka fólksins eða veiðigjöld. Það er einföld sanngirni.

Og hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson: Það var ekki vinstri stjórnin sem lagði þessa skatta á lægst launaða fólkið í landinu. Skuldir í dag eru skattar á morgun, hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson. Hrun íslenska efnahagskerfisins og þau hundruð milljarða sem stjórnarstefnan í aðdraganda bólunnar skapaði ollu þeim þungu skattbyrðum sem lögðust á almenning á Íslandi. Það er almenningur á Íslandi sem á að vera í forgangi þegar aftur er hægt að létta af sköttum en ekki hátekjufólkið og efnamennirnir.