144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[12:12]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi það sem hv. þingmaður kom inn á og snýr að Vísinda- og tækniráði eða samkeppnissjóðunum á sviði nýsköpunar þá vil ég að það komi fram hér að framlögin á yfirstandandi ári voru hærri en til dæmis árið 2012. Sú aðlögun sem gerð var með fjárlögunum 2013 var minni háttar og vöxtur í framlagi til sjóðanna í ágætu samræmi við það sem við erum að gera núna.

Okkur þótti ekki varlegt á þeim tíma að gera ráð fyrir því að það væri svigrúm, án þess að fara í hallarekstur hjá ríkissjóði, til að fara í alla þá aukningu sem vinstri stjórnin boðaði en sú aukning var auðvitað öll boðuð fyrir þetta kjörtímabil en náði aldrei fram að ganga á síðasta kjörtímabili. Aðalatriðið er það að slík mál, eins og framlög til nýsköpunar eða bygging nýs háskólasjúkrahúss, eiga þegar öllu er á botninn hvolft ekki að þurfa að vera mjög mikil pólitísk átakamál. Þetta er kannski meira spurning um að finna leiðir til að skapa forsendur fyrir því að ráðast í þessi verkefni.

Framlög til vísinda- og tæknimála á grundvelli aðgerðaáætlunar Vísinda- og tækniráðs munu ná 3% ef atvinnulífið spilar með eins og við erum að vonast til. Það væri sannarlega mjög stórt skref í þeim málaflokki og mundi leiða til þess að við værum að byggja betri grunn undir efnahagslífið. Vonandi fjölgar stoðum efnahagskerfisins til lengri tíma litið. Ég vil trúa því að þessi markmið séu raunhæf og muni ná fram að ganga.

Varðandi Ríkisútvarpið þá tók síðasta ríkisstjórn ákvörðun um að hafa gjaldið ekki að fullu markað. (Gripið fram í: Já.) Nú verður það þannig að (Forseti hringir.) innan tveggja ára mun stofninn að fullu verða markaður. (Forseti hringir.) Valkosturinn sem við stóðum frammi fyrir í fyrra (Forseti hringir.) var annars vegar að lækka gjaldið (Forseti hringir.) og hins vegar að auka framlög til RÚV.

Við erum að létta undir með skattgreiðendum.