144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[12:17]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Frumvarp til fjárlaga ársins 2015 liggur nú fyrir og er mörg ánægjuleg tíðindi að finna í frumvarpinu. Forgangsröðun ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum var mörkuð með fjárlögum 2014. Hún birtist í stórsókn í heilbrigðismálum eftir langvarandi niðurskurð fyrri ríkisstjórnar. Bætt var myndarlega í við gerð fjárlaga 2014 og hefur sú hækkun sem þá var gerð haldið sér á milli ára.

Frá fjárlögum 2013 er því búið að bæta í heilbrigðiskerfið tæpum 15 milljörðum haldi forsendur fjárlagafrumvarps 2015 sér og ekki er ástæða til að halda annað. Er afar gleðilegt að viljinn sem birtist í fjárlögum 2014 í framlögum til Landspítalans heldur sér og gott betur í frumvarpi þessu sem við ræðum í dag. Ríkisstjórnin hefur því lagt tæpa 7 milljarða beint í Landspítalann og tækjakaupaáætlun upp á 5 milljarða til ársins 2018 heldur sér að sjálfsögðu. Sjúkrahúsið á Akureyri fær einnig hækkun ásamt öðrum heilbrigðisstofnunum. Hér birtist sá ríki vilji ríkisstjórnarinnar að forgangsraða til heilbrigðismála. Ég vísa á bug allri gagnrýni um að við stöndum ekki vörð um hina sjúku.

Eins vísa ég á bug þeirri gagnrýni að við höfum ekki staðið vörð um eldri borgara og öryrkja. Aldrei fyrr hefur verið bætt eins miklu fjármagni til þessa málaflokks og gert var í fjárlögum 2014 og haldið er áfram að bæta skerðingar fyrri ríkisstjórnar í þessum málaflokki í frumvarpi þessu. Heildarfjárveiting samkvæmt frumvarpinu til málaflokksins er áætluð tæpir 124 milljarðar og hækkar um tæpa 2,6 milljarða frá gildandi fjárlögum. Þegar tillit er tekið til verðlagsbreytinga, sem nema tæpum 3,2 milljörðum, hækkar málaflokkurinn um tæpa 6 milljarða. Hækkun til þessa málaflokks frá fjárlögum 2013 er langt yfir 10 milljarða.

Þarna er sýnt fram á, virðulegi forseti, eins og ég sagði áðan, að við stöndum vörð um eldri borgara og öryrkja. Þrátt fyrir að stjórnarandstaðan berji sér á brjóst og telji að við höfum skilið þessa hópa eftir sannast í þessu frumvarpi og fjárlögum 2014 að svo er ekki. Vonast ég nú til að þessar raddir lækki að minnsta kosti, ef þær þagna ekki alveg, vegna þess árangurs sem verið er að sýna hér með þessari innspýtingu í málaflokkinn.

Við stöndum vörð um þá sem minna mega sín í samfélaginu en það má lengi deila um hvenær nóg er nóg. Slíkur viðsnúningur hefur orðið í þessum málaflokkum síðan ríkisstjórnin tók við eftir langvarandi niðurskurð fyrri ríkisstjórnar sem kenndi sig við norræna velferð að eftir er tekið.

Já, virðulegi forseti, gagnrýni fyrri ríkisstjórnarflokka er einkennileg, málrómurinn er holur. Hin stóra mynd frumvarps til fjárlaga nú er sú að gert er ráð fyrir að fjárlög verði hallalaus annað árið í röð og nú er gert ráð fyrir afgangi. Þegar upp er staðið verður fjárlögum 2014 ekki bara skilað hallalausum upp á tæpan 1 milljarð eins og gert var ráð fyrir heldur urðu jákvæðir atburðir til þess að fjárlögum 2014 verður líklega skilað með tæplega 40 milljarða afgangi. Því eru það ákveðin vonbrigði að ekki sé gert ráð fyrir nema 4 milljarða afgangi í fjárlögum 2015 en gleymum því ekki að ýmsir jákvæðir atburðir geta gerst á árinu sem leiða til meiri afgangs eins og gerðist við fjárlög 2014.

Ég hefði viljað sjá gert ráð fyrir mun meiri afgangi því að víða má enn spara og sameina stofnanir til að ná fram hagræðingu. Ríkisbáknið er einfaldlega allt of stórt og tekur til sín allt of mikið fjármagn. Það að ná aga í ríkisfjármálum krefst samstillts átaks allra sem að því koma, framkvæmdarvaldsins, löggjafarvaldsins, ráðuneytanna og stofnana ríkisins. Það er ólíðandi að stofnanir fari fram úr fjárlögum, slíkt mundi aldrei ganga á almenna vinnumarkaðnum og botnlaust tap ár eftir ár mundi ekki líðast. Ríkið verður að spegla sig í vinnubrögðum fyrirtækja, um reksturinn gilda nákvæmlega sömu lögmál, útkoman verður að vera hærri en útgjöldin.

Einn mesti veikleiki okkar sem þjóðar er skuldir ríkissjóðs en nú skuldar ríkissjóður tæpa 1.500 milljarða. Þetta eru háar upphæðir sem leiðir til þess að vaxtagreiðslur ríkisins í frumvarpi til fjárlaga 2015 eru um 84 milljarðar sem eru þar af leiðandi þriðji stærsti útgjaldaliður ríkisins á eftir heilbrigðismálum, almannatryggingum og velferðarmálum. Út úr þessum vítahring verðum við að komast sem fyrst. Boðað er að selja þurfi ríkiseignir til að vinna á skuldum ríkissjóðs.

Við gerð fjárlaga var lagt upp með að ráðuneytin útfærðu 5,5 milljarða aðhaldsráðstafanir með það að markmiði að bæta afkomu ríkissjóðs. Deila má um hvort sú krafa hafi verið nógu róttæk því að umsvif ríkisins hafa aukist mjög á milli ára. Á fjárlögum 2014 var velta ríkisins um 613 milljarðar en í fjárlagafrumvarpi ársins 2015, sem nú er til umræðu, er veltan tæpir 645 milljarðar. Umsvif ríkisins hafa því aukist um 32 milljarða á milli ára sem segir að útgjöldin hafi aukist um 28 milljarða vegna þess að einungis var gert ráð fyrir 4 milljarða afgangi.

Þrátt fyrir ríkan vilja til að draga úr umsvifum ríkisins sýna þessar fjárhæðir og tölur að báknið þenst út. Þá spyr maður sig: Hvenær ná skattgreiðendur því marki að standa ekki undir rekstri hins opinbera? Fólksfjölgun hér á landi er ekki í neinu samhengi við útþenslu hins opinbera. Sem betur fer er atvinnulífið að braggast og fleiri og fleiri lífvænleg fyrirtæki skila skattgreiðslum til ríkisins og auk þess er atvinnuleysi á hraðri niðurleið sem er afar jákvætt.

Sala ríkiseigna er einskiptisaðgerð og ef af verður er algjört skilyrði að söluhagnaður fari ekki inn í hina óseðjandi hít hins opinbera heldur beint í að borga niður skuldir óskipt. Það er algjört grundvallaratriði.

Í ræðu minni í gær eftir stefnuræðu forsætisráðherra ræddi ég þann vanda sem steðjar að öllum þjóðum, hina svokölluð svörtu atvinnustarfsemi, skatta- og bótasvik. Það er skylda ríkisvaldsins að forgangsraða í ríkisrekstri og hafa skatta hóflega til að samfélagssáttmálinn um viljann til að greiða skatta rofni ekki. Ekkert fer verr með samfélög en svört atvinnustarfsemi, undanskot og bótasvik. Í þannig samfélagi ríkir mikil tortyggni. Því verðum við að huga að þeim þætti að uppræta slíkt og standa saman að skilvirku samfélagi. Vilji til vinnu og virkrar þátttöku í samfélaginu er forsenda hagvaxtar og velgengni þjóðarinnar.

Eitt skulum við muna og hafa hugfast, að fyrir hverja krónu sem borguð er til dæmis í bætur hefur annar einstaklingur lagt fram aðra í formi skatta af atvinnutekjum sínum. Oft og tíðum virðist ekki til staðar skilningur á þeirri hugsun að ríkið sé ekki auðlind sem allir geta sótt fé í, samanber að þegar verið er að útdeila bótum er sagt: Ég á rétt á þessu. Þegar fé er lagt í eitthvað sem okkur finnst öllum sanngjarnt og sjálfsagt lítur viðkomandi aðili svo á að hann eigi rétt á þessu en einhvern veginn er lítill skilningur á því að það er akkúrat þessi sameiginlega skattkarfa sem allar vinnandi hendur hafa lagt sitt framlag í sem stendur undir viðkomandi útgjaldaflokkum.

Í samræðum í fyrra við aðila sem hafa með þessi mál að gera, bótasvik og annað slíkt, var talið að bótasvik hér á landi og skattsvik næmu mörgum milljörðum á ári þegar við gefum okkur að forsendurnar séu hinar sömu og annars staðar á Norðurlöndunum. Á þessu verðum við að taka á einhvern hátt og ræða opinskátt og á jákvæðan máta til að fleiri aðilar komi að því að leggja til og líka til þess að þeir sem þurfa virkilega á þessum greiðslum að halda og eiga rétt á þeim samkvæmt skilgreiningu samfélagsins beri þá jafnvel meira úr býtum. Ef við getum á einhvern hátt komið í veg fyrir skatta- og bótasvik er meira til skiptanna fyrir þá sem þurfa á bótum að halda. Það er staðan sem allir hagnast á.

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin tók við eftir kosningar á miðju ári 2013 og hefur starfað í um 15 mánuði. Viðsnúningurinn í ríkisrekstrinum er afgerandi og hagvísar á hraðri uppleið. Í megindráttum má segja að fjárlagafrumvarp 2015 hafi þennan ramma. Það boðar áframhaldandi stöðugleika og jafnvægi í efnahagsmálum ríkisins og skuldasöfnun er stöðvuð. Gert er ráð fyrir um 3% hagvexti á árinu 2015 og að kaupmáttur launa verði 2,6% en hann var 1,7% þegar ríkisstjórnin tók við. Jafnframt gerir Hagstofa Íslands ráð fyrir 3,4% verðbólgu á árinu 2015 en hún var 3,9% 2013.

Gert er ráð fyrir að atvinnuleysi fari niður í 3,5% en atvinnuleysi var hér 5,4% árið 2013.

Þetta eru stóru tölurnar, stóra myndin, virðulegi forseti. Þarna birtist stefnumörkunin og sá grunnur sem fjárlagafrumvarpið er byggt á. Það eru mjög jákvæð teikn á lofti og við göngum bjartsýn inn í veturinn. Hæstv. fjármálaráðherra hefur óskað eftir því að vísa þessu frumvarpi til fjárlaganefndar að aflokinni 1. umr. Ég sem formaður fjárlaganefndar lýsi yfir ánægju minni með þetta frumvarp og hlakka til að takast á við verkefnin fram undan.