144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[12:33]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. formaður fjárlaganefndar hlýtur að átta sig á því að tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins er undir í þessari umræðu. Hann getur ekki verið svo vankunnandi um starfshætti hér í þinginu að átta sig ekki á því.

Það er eðlilegt að spyrja hv. formann fjárlaganefndar hvort hann styðji 11 milljarða hækkun á tekjuhlið frumvarpsins, sem hér er lögð til, eða hvort hann ætli í meðförum nefndarinnar að stöðva þessar fyrirætlanir um hækkanir á lífsnauðsynjum fyrir almenning.

Orð hans um aldraða, hvað bætur til þeirra varðar — það er alveg rétt að eftir hrun voru ekki peningar til skiptanna eins og hv. þingmaður veit. Það er ólíku saman að jafna nú þegar samfelldur hagvöxtur í mörg ár, undir forustu ríkisstjórnar vinstri flokkanna, er að skila sér í ríkissjóð og til eru peningar til að láta bæði útgerðarmenn og auðmenn hafa tugmilljarða skattalækkanir; að þá skuli ríkisstjórnin ekki taka að fullu til baka þær skerðingar sem við vorum öll sammála um í þessum sal að ættu að vera tímabundnar, þær voru settar á tímabundið og áttu að falla niður á þessu ári. Það er auðvitað dapurlegt að það skuli ekki vera efnt nú þegar loks hefur verið sigrast á hallarekstrinum og hagvöxturinn er að skila sér.

Ég hlýt fyrst og fremst að kalla eftir því að formaður fjárlaganefndar sé ekki í neinum feluleik með það hvað honum finnist um hækkun á matarskatti. Almenningur hlýtur að eiga rétt á upplýsingum um það þegar fram er komið fjárlagafrumvarp með stærstu einstöku tillögu um hækkun á neyslusköttum sem sést hefur að minnsta kosti eftir hrun, ef ekki í sögu Íslands, 11 milljarðar kr. Stendur formaður fjárlaganefndar við það að vera andsnúinn slíkri hækkun á lífsnauðsynjum til almennings? Ætlar hann að standa með þeirri sannfæringu sinni, sem ég mundi bera mikla virðingu fyrir, eða ætlar hann að strauja þetta í gegn á forsendum ráðherraræðis og þess að formenn stjórnarflokkanna hafa að engu haft viðvaranir þingmanna Framsóknarflokksins í þessum efnum?