144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[12:40]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn og þetta andsvar.

Það er alveg klárt að Framsóknarflokkurinn hefur alltaf staðið vörð um þá sem minna mega sín, svo við förum fyrst aðeins yfir það vegna þess að þingmaðurinn var eitthvað að efast um það að ég væri tilbúin til þess að láta ríkið reiða af hendi fjármagn til þeirra sem minnst mega sín. Ég fór akkúrat yfir það í ræðu minni að við stöndum vörð um þessa hópa og sýndi fram á það í ræðu minni með tölum hversu mikið ríkisstjórnin væri búin að koma til móts við þessa hópa, þannig að það sé alveg á hreinu. Svo er annar handleggur sá hluti ræðunnar sem ég fór yfir um bóta- og skattsvik sem er ólíðandi í nútímasamfélagi þegar velta þarf við hverri einustu krónu.

Sú spurning kom fram hvaða verkefni ég vildi ekki að ríkið stæði í. Efst á baugi þar er til dæmis atvinnurekstur í samkeppni við einkaaðila. Ríkið á alls ekki að vera þar. Um leið og ríkið er farið að keppa við einstaklinga á almennum markaði á það að koma sér út úr þeim rekstri. Það er akkúrat svona dæmigert „plain“ dæmi sem ég get bent þingmönnum á að ég sé á móti og ríkið eigi ekki að koma nálægt.

Varðandi spurninguna um þjóðkirkjuna þá þyrftum við að fara aðeins á bak við fjárlagafrumvarpið til þess að vita grunninn að því. Þetta eru fjárlög 2015 sem birtast hér með tillögu að fjármagni til þjóðkirkjunnar. Þannig er að þjóðkirkjan er varin í stjórnarskrá og meðan ekki er komin fram tillaga eða ákvörðun um aðskilnað ríkis og kirkju þá lít ég svo á að þjóðkirkjan fái greiðslur frá ríkinu. Svo einfalt er það.