144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[12:45]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þetta andsvar. Ég veigra mér við akkúrat þessa glæpaumræðu sem þingmaðurinn kom inn á. Við sjáum þetta á engan hátt þannig. Því miður, ef þetta er rétt, er það mjög dapurlegt. Þetta er ekki svo, að sjálfsögðu ekki. Ég fór hér yfir í ræðu minni bæði í gær og í dag að þeir sem þurfa aðstoð frá ríkinu eigi að fá hana með fullri reisn. Ég bið þingmenn um að vera ekki að snúa svona út úr orðum mínum. Ef þetta hefur komið einhvers staðar fram í máli þingmannsins við einhvern úr þessum hópi er það grafalvarlegt mál. Ég hvet hina sömu að leita til umboðsmanns Alþingis, svo ekki sé annað sagt, eða leita á einhvern að leita réttar síns.

Varðandi umræðuna um þjóðkirkjuna og hvort mér finnist eðlilegt að ríkið greiði til þjóðkirkjunnar. Já, mér finnst það. Á meðan ekki er komin fram tillaga um þá breytingu, um aðskilnað ríkis og kirkju, finnst mér það hinn eðlilegasti hlutur að fjárveitingavaldið standi með þjóðkirkjunni. Það er nú svo að þessi umræða um aðskilnað ríkis og kirkju kemur alltaf upp annað slagið. Sú umræða var t.d. mjög algeng á síðasta kjörtímabili þar sem vinstri menn fóru með stjórn landsins. Ég hvatti til þess þá og hvet til þess núna að þeir sem vilja aðskilnað ríkis og kirkju leggi bara fram frumvarp um það í þinginu. Hljóti það frumvarp brautargengi er málinu sjálfkrafa vísað í þjóðaratkvæðagreiðslu samkvæmt stjórnarskrá, sem er bindandi. Það er ákvæði í stjórnarskránni um það að ef stungið er upp á því að aðskilja ríki og kirkju skuli samdægurs fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla og hún er bindandi. (Forseti hringir.)

Þannig að til þess að spara tíma og orku vil ég segja að fylgismenn þess að skilja að ríki og kirkju hafa öll tækifæri til að gera það (Forseti hringir.) og þá minnkar kannski þessi háværa umræða um að (Forseti hringir.) þjóðkirkjan sé ómöguleg.