144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[13:20]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að óska hæstv. fjármálaráðherra til hamingju með sitt annað fjárlagafrumvarp. Ég er alveg viss um að það hefur verið átak og erfitt að mæta þeirri kröfu nú í fyrsta sinn að leggja fram í september fjárlagafrumvarp og tekjuöflunarfrumvörp samtímis en er mikið ánægjuefni að það tókst.

Ég og við í Bjartri framtíð nálgumst frumvarpið að mörgu leyti með sama huga og mér heyrist hæstv. fjármálaráðherra nálgast það. Við erum alveg með sömu markmið í huga sem við teljum mikilvæg. Hæstv. fjármálaráðherra er dálítið tamt að tala um gagnrýni vinstri manna á hans hugmyndafræði og á þetta frumvarp. En Björt framtíð er frjálslyndur flokkur og varðandi fjárlagafrumvarpið, ef ég á að skoða mína gagnrýni á þessum ás hægri/vinstri sem er að mörgu leyti úreltur mælikvarði, þá finnst mér ég nú sem frjálslyndur stjórnmálamaður að mörgu leyti hafa ýmislegt út á þetta að setja út frá hægri sjónarmiðunum. Þetta er ekki alveg einhlítt.

Hæstv. fjármálaráðherra talar um að það þurfi aðhald og að það þurfi að afmarka skýrt hvað ríkisreksturinn snýst um. Því erum við hjartanlega sammála í Bjartri framtíð. Við teljum hins vegar að ýmislegt í fjárlagafrumvarpinu sé í mótsögn við það markmið. Við höfum talað mikið um að það þurfi að lækka skuldir hins opinbera, að það sé stærsta verkefnið. Það er verkefni sem formanni Sjálfstæðisflokksins ætti að þykja sérstaklega aðkallandi vegna þess að það var rosalegur viðskilnaður hvað þetta varðar árið 2008 þegar Sjálfstæðisflokkurinn fór úr stjórn. Það var 140 milljarða halli á ríkissjóði þá eftir efnahagshrun og alveg ljóst að það yrði langstærsta verkefni í ríkisfjármálum á komandi áratugum að lækka allar þær skuldir sem þá fóru á ríkissjóð.

Við erum alveg sammála um að það þarf að standa vörð um ákveðna grunnþætti. Ríkið hefur skyldur. Þær þurfa að vera afmarkaðar og ríkið þarf að gera það vel sem því ber að gera. Ég held að það sé einkum að sjá til þess að hlutir eins og heilbrigðisþjónusta sé í lagi, að vegakerfið og fjarskipti séu í lagi, að menntakerfið sé gott, að það sé góður skattalegur grundvöllur og stuðningskerfi við fjölbreytt atvinnulíf. Á grunni alls þessa er það einstaklinganna og samtaka þeirra og fyrirtækja að láta drauma sína rætast, svona í grundvallaratriðum.

Ég er algjörlega sammála því að það eru mikil gleðitíðindi að það sé öflugur hagvöxtur í landinu og atvinnuleysi fari minnkandi og fjárfesting sé að aukast en það þarf að rýna í þessar tölur og sjá aðeins veruleikann á bak við þær vegna þess að sá veruleiki veldur að mörgu leyti áhyggjum.

Ég ætla aðeins að fara yfir þetta. Tökum fyrst aðhaldið. Hæstv. fjármálaráðherra verður tíðrætt um nauðsyn aðhalds og þingmönnum í hans flokki verður tíðrætt um nauðsyn aga í ríkisfjármálum. Mér finnst nokkur áberandi dæmi sýna að þetta aðhald skortir. Mér finnst líka mörg áberandi dæmi sýna að það skortir skilning á því að hlutverk ríkisvaldsins á að vera afmarkað og skilvirkt.

20 milljarðar á þessu ári, mér verður tíðrætt um þetta, 20 milljarðar á þessu ári, 20 milljarðar á næsta, 20 milljarðar á þar næsta ári í það, úr ríkissjóði, að borga niður ákveðið hlutfall af einkaskuldum sumra heimila, 56 þús. eða hátt í 60 þús. heimilum gefst ekki kostur á að fá þetta. Þetta er ekki í mínum huga dæmi um aðhald í ríkisrekstri, á engan hátt. Það kemur hér nýr skattstofn, 20 milljarðar, hann er ótryggur, það er ekki víst að hann dugi út kjörtímabilið vegna þess að bú gömlu bankanna geta verið gerð upp. Þetta mundi ekki mæta skilyrðum um aga og aðhald og ábyrgð sem mælt er fyrir um í boðuðu frumvarpi um opinber fjármál. Það er alveg sama hvað hæstv. fjármálaráðherra reynir að réttlæta þessa aðgerð út frá alls konar forsendum, hún er ekki dæmi um hægri stefnu í pólitík, alveg augljóslega ekki, og hún er ekki dæmi um aðhald og aga. Það er ekki verið að nota þessa peninga til að greiða niður skuldir ríkissjóðs sem ég held að hæstv. fjármálaráðherra viðurkenni og hafi margoft sagt að er eitt mest aðkallandi verkefni ríkisvaldsins.

Það er ekki verið að nota þessa peninga til að efla þær grunnstoðir sem ég talaði um að við hlytum að vera sammála um að væri hlutverk ríkisvaldsins.

Svo eru önnur dæmi um að það skortir aga. Af hverju er allt í einu kominn einhver peningur í forsætisráðuneytið til að viðhalda gömlum húsum? Af hverju er hæstv. forsætisráðherra allt í einu farinn að endurreisa réttir og lakka glugga? Hvað ef hann hefði áhuga á einhverju öðru en því? Það kunna að vera einhverjar réttlætingar fyrir þessu. Vissulega er mikilvægt að viðhalda menningararfinum og gera upp gömul hús. Við höfum haft húsafriðunarnefnd í því verkefni hingað til. En allt í einu er tekinn peningur úr einhverju sem átti að fara í græna hagkerfið — sem var byggt á skýrslu sem var unnin í þverpólitísku samráði allra flokka á Alþingi, gerðar rúmar 50 tillögur um alls konar mikilvæg og brýn verkefni á sviði græna hagkerfisins til að efla grænan iðnað — og settur í eitthvað sem hæstv. forsætisráðherra hefur áhuga á að gera. Þetta er ekki agi, sama hvernig menn reyna að réttlæta þetta. Þetta er enginn agi, þetta er ekkert aðhald, þetta er bara svona hipsumhaps út í loftið.

Ég nálgast þetta að mörgu leyti út frá frjálslyndum kennisetningum um ríkisreksturinn og ef við erum sammála um, við hæstv. fjármálaráðherra, að þær eigi að vera hér til grundvallar þá kemur það mér spánskt fyrir sjónir að ekkert er farið inn í landbúnaðarkerfið. Ekkert er farið inn í alla þá peninga sem renna til styrkveitinga í mjög einsleitan landbúnað, ekkert gert til að reyna að auka þar samkeppni og frelsi í viðskiptum og betri nýtingu fjármuna. Það er ekkert gert í þeim efnum.

Og ríkið stendur í verslunarrekstri með vín. Það samrýmist ekki endilega frjálslyndri nálgun á ríkisfjármál.

Lækka skuldir — hæstv. fjármálaráðherra fór yfir það hversu mikilvægt það er. Nú er ég að rýna í fjárlagafrumvarpið og skoða líka álit frá hagfræðideild Landsbankans og það er náttúrlega bent á að áætlunin til 2018 gerir ekki ráð fyrir neinni lækkun opinberra skulda í krónutölu. Hún lækkar í hlutfalli við landsframleiðslu en krónutalan lækkar ekki. Það á sem sagt ekki, miðað við fyrirliggjandi áætlun, að greiða niður opinberar skuldir, miðað við áætlunina til 2018. Mér finnst þetta, miðað við að það fannst nýr skattstofn þótt hann sé ótryggur, stór tíðindi. Vissulega eru hugleiðingar um að kannski ætti að selja hlut í Landsbankanum til að greiða niður eitthvað af þessum skuldum en það eru einungis hugmyndir á þessum tímapunkti. Það dæmi þarf að vera uppi á borðinu. Væri skynsamlegra að eiga þann hlut og njóta arðgreiðslnanna? Er skynsamlegt að selja þetta í snatri til að borga niður hluta af opinberum skuldum? Það dæmi þurfum við að sjá allt saman en mér finnst stóri áfellisdómurinn yfir ríkisrekstrinum, miðað við áætlunina til 2018, að krónutala opinberra skulda minnkar ekki þrátt fyrir nýja tekjustofna. Vaxtagreiðslurnar af skuldunum hækka á þessu ári miðað við síðasta ár. Þetta er þriðji stærsti útgjaldaliðurinn á fjárlögum upp á 84 milljarða kr.

Þetta finnst mér mikið áhyggjuefni og mér finnst ekki hægt að hæstv. fjármálaráðherra geri mikið úr því markmiði að greiða niður opinberar skuldir ef hann er svo ekki að því.

Einfalda skattkerfið — það er talað um að það þurfi að gera og minnka byrðar á atvinnulífið og heimilin. Við deilum því markmiði, við teljum að það sé mjög mikilvægt í Bjartri framtíð. Þess vegna tókum við því alveg með opnum huga að einfalda ætti virðisaukaskattskerfið. Við höfum að mörgu leyti skilning á sjónarmiðum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til dæmis um að ekki sé endilega heppilegt að nota virðisaukaskattskerfið til tekjujöfnunar og betra sé að fara aðrar leiðir þannig að við lögðum við hlustir. Mér finnst því mjög athyglisvert að þegar maður hlýðir á hæstv. fjármálaráðherra er alveg ljóst að skattþrepin verða áfram tvö, það er ekkert verið að einfalda hvað það varðar. Það á að fækka um eina undanþágu og það eru afþreyingarferðir í ferðaþjónustu.

Fyrst þetta er framtíðarsýnin held ég að það sé miklu skynsamlegra að hafa lægra þrepið vel lágt og efra þrepið til dæmis 24%, bara á pari við það sem gerist í nágrannalöndum okkar, setja í neðra þrepið skýrt afmarkaðar nauðsynjavörur, eins og mat til dæmis, og bækur sem gera okkur kleift að lesa og efla lestur, hita og rafmagn og vera ekkert að þvæla inn í það hlutum eins og ferðaþjónustu, svo að dæmi sé tekið. Það væri skýrt, það væri skiljanlegt, það væri sátt um það.

Ef menn ætla að hafa tvö þrep held ég að það sé alveg hægt að einfalda innan þess ramma, það er ekki til þess að einfalda að fara með 7% upp í 12%, það er bara pólitísk stefnumörkun sem mér einfaldlega líkar ekki við vegna þess að matur er nauðsynjavara. Ef hæstv. fjármálaráðherra eða ég eða einhver annar, einhver af þessum háskólamenntuðu einstaklingum sem núna eru atvinnulausir, ef maður kemst í þá stöðu á morgun, missir vinnuna, eitthvað gerist, eitthvert áfall gerist í lífinu, hvað gerir maður þá?

Maður þarf að kaupa mat en maður frestar því að kaupa þurrkara eða viðhalda bílnum. Maður gengur í sömu fötunum áfram, en maður þarf mat. Það eru alveg skýr sjónarmið fyrir því að matur sé nauðsynjavara og höfum hann þá í lágu virðisaukaskattsþrepi.

Svo er margt annað verið að gera í skattamálum sem er ekki til einföldunar. Það er verið að seilast inn í alls konar tekjustofna og fara með þá í ríkissjóð sem eiga með réttu að vera gjöld, t.d. tryggingagjaldið. Það er afmarkað gjald fyrir vinnumarkaðinn til að standa straum af Atvinnuleysistryggingasjóði, Fæðingarorlofssjóði og ýmsum verkefnum tengdum vinnumarkaði. Ríkið er nú að seilast inn í þennan gjaldstofn og taka hann inn í ríkissjóð. Þar með er vinnumarkaðurinn farinn að borga tvo tekjuskatta. Það er ekki einföldun, þetta er flókið, þetta er flóknara.

Það sama er með annað, það þarf að huga að öllum gjaldafrumskóginum líka. Ef taka á hluta af útvarpsgjaldi inn í ríkissjóð er það þar með orðið skattur.

Síðan hljómar það ekkert sem sérstök einföldun og í rauninni svolítið andsnúið því sem ég tel vera stefnu Sjálfstæðisflokksins að afnema eða lækka endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna viðhalds bygginga. Ég held að Allir vinna-átakið hafi verið dæmi um átak sem einmitt jók veltu, minnkaði svartamarkaðsbrask og mér finnst skjóta skökku við að það eigi að bakka með þetta. Mér finnst líka varðandi skattkerfið, vegna þess að eitt höfuðmarkmiðið er að minnka svarta markaðinn, t.d. í ferðaþjónustu — það voru fréttir um það í dag að hann er líklega að stækka — að minnka á framlög til skattrannsóknarstjóra. Hvernig samrýmist það markmiðinu um að reyna að koma þessu öllu upp á yfirborðið?

Mér finnst eitt og annað skjóta skökku við.

Varðandi grunnþjónustuna vil ég bara segja að það var ævintýralegur niðurskurður, ótrúlegur niðurskurður til dæmis á Landspítalanum eftir hrun, fullt af fólki í velferðarkerfinu, í menntakerfinu, í lögreglunni, úti um allt, tók á sig alveg ótrúlega vinnu í því að ná endum saman fyrir sínar stofnanir í þeirri von að einhvern tímann yrði viðsnúningur. Það er það sem við erum að tala um, við þurfum viðsnúning þannig að þetta fólk upplifi það að það hafi gert eitthvað sem skipti máli, það sé ljós við endann á göngunum. Ef við skoðum til dæmis stöðu Landspítalans núna á viðsnúningurinn sér ekki stað. Þótt það hafi verið settir inn meiri peningar vantar enn um 4%, hátt í 2 milljarða, bara svo að Landspítalinn geti sinnt lögbundnum skyldum.

Að síðustu vil ég að tala um hagvöxtinn (Forseti hringir.) og benda á að þó að atvinnuleysi fari niður er það ungt háskólamenntað (Forseti hringir.) fólk sem ekki fær vinnu. Skilaboðin sem ríkisstjórnin er að senda því fólki er að það á (Forseti hringir.) núna að fara af atvinnuleysisskrá og inn á sveitarfélögin.