144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[13:36]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir mjög málefnalegt innlegg hér í umræðuna. Ég vil byrja á því að segja að í tengslum við aðhaldið sem honum var tíðrætt um er áframhaldandi aðhald í þessum fjárlögum. Það er gert ráð fyrir því að aðhald verði viðhaft í ríkisfjármálunum næstu árin. Það er forsenda þess að við stöðvum þessa skuldasöfnun sem er svo mikil nauðsyn að gera.

Hvert er samhengi við aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna? Það er t.d. það að þegar fjárlagafrumvarp kom fram á síðasta ári þá vorum við með hallalaust fjárlagafrumvarp þrátt fyrir að ekki væri gert ráð fyrir aðgerðum fyrir skuldsett heimili. Það var ekki fyrr en þær aðgerðir höfðu að fullu verið fjármagnaðar með bankaskattinum og afnámi undanþágna þar sem sú aðgerð var lögfest. Hér er ekki svigrúm til þess að fara nánar ofan í þá aðgerð, en hún er að mínu áliti nauðsynleg.

Maður spyr sig eftir umræðurnar hérna í dag hvort það sé virkilega svo að flokkarnir hér utan ríkisstjórnar hafi ekki haft upp nein áform um neinar aðgerðir til þess að koma til móts við skuldavanda heimilanna á þessu kjörtímabili, það hafi sem sagt ekki átt að verja neinu af vaxandi svigrúmi ríkissjóðs til þess að koma til móts við þá sem urðu verst úti í verðbólgunni.

Skuldir. Ég hef rætt um áður að það þarf að taka á skuldastöðunni og eignasala er ein augljósasta leiðin til þess. Ég hef bent á það að við stefnum á að selja hlut í fjármálafyrirtækjum og greiða þannig upp skuldir. Ég vil bara nefna það hér að lokum að vilji menn efla opinbera þjónustu verða menn mjög fljótt (Forseti hringir.) komnir í þrönga stöðu til þess að halda rekstri ríkissjóðs í jafnvægi. (Forseti hringir.) Verulegar umbætur í opinberri þjónustu kalla á verulega (Forseti hringir.) mikil ný útgjöld.