144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[13:38]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi þetta með að gera eitthvað fyrir heimilin. Ég lít svo á að nýr Landspítali, betra menntakerfi, betra vegakerfi sé ekki fyrir ríkisvaldið, það er fyrir heimilin, það er fyrir fólkið sem býr hérna. Það er nokkuð sem ríkir sátt um á Íslandi að eigi að vera gott, er það ekki? Og það er fyrir heimilin. Það væri verra að búa á Íslandi ef þetta væri viðvarandi slæmt. Það er nú þess vegna sem við tölum um að þegar finnst nýr skattstofn þá sé rétt að fara í þessi verkefni vegna þess að þau bara hlaðast upp. Einhvern tímann mun þurfa að gera þetta. Það er einfaldlega með komandi kynslóðir í huga að við mælum með því að gera þetta ásamt því að efla rannsóknir og þróun til að fjárfesta í arðbæru atvinnulífi með meiri framleiðni og að greiða niður opinberar skuldir. Það hefðum við gert ef við ættum þess kost að finna þarna nýjan tekjustofn — allt fyrir heimilin og fyrir komandi kynslóðir.

Aðgerðin sem var farið í gagnast mögulega sextíu og eitthvað þúsund heimilum, hátt í 60 þúsund heimili fá engan aðgang að þessari aðgerð. Hún hjálpar ekki þeim sem eru í mestum vanda, hún gerir það ekki. Raunar á að skera niður til umboðsmanns skuldara sem er einmitt að hjálpa þeim sem eru í mestum vanda. Það var búið að setja hátt í 300 milljarða áður í þetta verkefni á síðasta kjörtímabili til að reyna að koma til móts við skuldavanda heimilanna.

Svo vil ég líka segja það að ég held að það hjálpi heimilunum langmest ef við erum ekki í því að reyna einhvern veginn að lappa upp á forsendubresti fortíðar, heldur reynum að laga (Forseti hringir.) forsendurnar, lækka vexti á húsnæðislánum og koma (Forseti hringir.) íslensku hagkerfi í þannig var að það sé hægt.