144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:16]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og hlýt að spyrja hann um það hvort hann styðji í raun og veru þessa stærstu einstöku hækkun á neyslusköttum á Íslandi frá hruni, 11 milljarða hækkun á nauðsynjum fyrir íslensk heimili sem nemur ekki 40 þús. kr. á heimili eins og mér skilst að hafi komið fram einhvers staðar í umræðunni. Það er ósköp einfalt að deila með 110 þúsund heimilum í 11 milljarða. Þetta eru um 100 þús. kr. fyrir hvert heimili í landinu sem um ræðir, mesta einstaka skattahækkun sem ég veit um frá hruni. Styður hv. þingmaður þá miklu skattahækkun á almenning í landinu? Það er auðvitað kjarnaspurningin.

Það er eðlilegt að þingmaðurinn reyni að tala um eitthvað annað en fjárlögin eins og tíð sína í heilbrigðisráðuneytinu og reyni að berja sér á brjóst fyrir að hafa gert meira en einhverjir aðrir gerðu þegar efnahagskerfið í landinu var hrunið á kjörtímabilinu á eftir. (Forseti hringir.) Ég minni hv. þingmann á að það er hv. þm. Kristján L. Möller sem hefur farið fyrir í tillöguflutningi í uppbyggingu nýs Landspítala í 10 ár og engin ástæða til að kasta rýrð á þá viðleitni.