144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:25]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við afgreiðslu síðustu fjárlaga komu stjórnarandstöðuflokkarnir með sína pakka. Það er mjög auðvelt að fletta því upp, tillögunum sem þá lágu fyrir. Samfylking kom nokkrum dögum fyrir fjárlögin, einum eða tveimur dögum fyrir, með pakka um hvernig ætti að eyða meiru og hvernig ætti að afla tekna. Það var nú sumt sérkennilegt en það var alla vega viðleitni. Mig minnir að Vinstri grænir hafi gert það líka.

Við þurfum ekkert að deila um þetta, það er hægt að fletta þessu upp. Það er líka hægt að fletta því upp hvernig hv. þingmenn Bjartrar framtíðar greiddu atkvæði. Það vakti athygli að Björt framtíð kom með pakka um útgjöld en ekki um tekjur, það vakti einfaldlega athygli. Ef það er ekki stefna Bjartrar framtíðar að haga sér þannig þá er það frábært, batnandi fólki er best að lifa.

Virðulegi forseti. Ég vil spyrja hv. þingmann, af því að hann nefndi matinn: Er það eina nauðsynjavaran? Þarf fólk ekki á neinu öðru að halda en mat?