144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:26]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst leiðinlegt að vera sakaður um ábyrgðarleysi, þegar kemur að ríkisfjármálum, og agaleysi. Ég vil leggja áherslu á að í meðferð fjárlaga- og tekjuöflunarfrumvarpa hjá Bjartri framtíð hefði afgangurinn á síðasta ári verið mun ríkulegri ef farið hefði verið að okkar ráðum og vel hægt að fjármagna þær tillögur sem við lögðum til um uppbyggingu í fjölbreyttu atvinnulífi. Það sýna allar okkar atkvæðagreiðslur og gjörðir við síðustu fjárlög. Það er hægt að fletta því upp.

Er matur eina nauðsynjavaran? Ég hallast að því að leggja dæmið svona upp: Ef eitthvað kemur nú upp á, sem getur gerst, ekki síst hjá háskólamenntuðu fólki á Íslandi eins og tölur sýna, og maður er bara ekki með tekjur, hvað þarf maður? Ég held að maður geti beðið með þurrkarann, maður mundi bíða með viðhaldið á bílnum. Ég fékk mér nú uppþvottavél bara á síðasta ári. Maður bíður með flatskjáinn. En maður þarf mat. Maður þarf heitt vatn og rafmagn, held ég, fyrir húsið sitt. (Forseti hringir.) Ég held að það sé vel hægt að skilgreina, (Forseti hringir.) fyrst menn ætla að hafa tvö þrep á virðisaukaskattsstiginu, svona tegundir af nauðsynjavörum (Forseti hringir.) og hafa þær þar, og hafa það frekar lágt, og setja allt annað í hitt.